Hæ, ég heiti Ágústa og er Júróvisjónnörd. Sko, með ólæknandi áhuga á þessari dásamlegu keppni og öllu sem henni viðkemur. Eina ástæðan fyrir því að ég horfi ekki á undankeppnir annarra þjóða er að ég skil ekki tungumálin og missi því af öllum bröndurunum sem kynnarnir segja. Ég vil ekki vera týpan sem hlær ekki að góðum brandara vegna þess að ég skildi ekki tungumálið.
Til marks um það hversu mikið Júrónörd ég er þá var ég stödd á mannamóti á dögunum þegar sigurlag keppninnar árið 1970, All kinds of everything með hinni írsku Dönu, byrjaði að óma upp úr þurru. Auðvitað þurfti Júróvisjón-beturvitinn ég að deila því með fólki að þarna væri á ferðinni sigurlag úr Júróvisjón um leið og ég ruddi upp úr mér alls konar ónauðsynlegum upplýsingum um lagið, árið sem það vann og hversu oft Írar hafa unnið keppnina. Eðlilega horfði fólk frekar undarlega á mig eftir að ég hafði þulið upp allar helstu staðreyndir um lag sem vann Júróvisjón fyrir næstum fimmtíu árum.
Segja má að nú fari Júróvisjóntímabilið í hönd fyrir alvöru þegar við Íslendingar höfum valið framlag okkar í Tel Aviv í maí. Hatari mun stíga á svið í BDSM-búningum frá toppi til táar og raða án efa inn helling af 12 stigum. Eitt er víst, að Hatari á eftir að vekja mikla athygli í Júróvisjón og gæti, ef eitthvað er að marka veðbanka, náð langt í Ísrael.
Nú er fínt að henda í samsæriskenningu. Og nei, hún mun ekki innihalda George Soros eða djúpríki sem stjórnar samfélaginu án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Heldur mun þessi samsæriskenning byggja á grjóthörðum Júróvisjónstaðreyndum!
Árið 1999 tók Selma Björnsdóttir þátt fyrir Íslands hönd í Júróvisjón með lagið All Out of Luck. Fyrir keppnina náði Selma að heilla Júróspekinga úti um alla Evrópu og veðbankar spáðu henni einu af efstu sætunum. Niðurstaðan var hins vegar annað sætið á eftir hinni sænsku Charlotte Nilsen sem stal fyrsta sætinu af Selmu með Abba-skotnu lagi. Vissulega var annað sætið svekkjandi í smá stund en það var besti árangur okkar Íslendinga í keppninni fram að því. Og full ástæða til að fagna því.
„Það eru sem sagt tuttugu ár síðan Selma lenti í öðru sæti í Jerúsalem og tíu ár síðan Jóhanna Guðrún lenti í sama sæti“
Tíu árum seinna fór keppnin fram í Rússlandi. Þjóðin valdi Jóhönnu Guðrúnu sem fulltrúa sinn en þangað flaug hún ásamt fríðu föruneyti og flutti lagið Is It True óaðfinnanlega. Árið 2009 var fyrsta sætið frátekið fyrir Alexander Rybak þannig að spennan var um sætin þar fyrir neðan. Eftir æsispennandi stigagjöf var ljóst að Jóhanna Guðrún hafði landað öðru sætinu með glæsibrag. Kreppuþjáðir Íslendingar tóku þeim fréttum að sjálfsögðu fagnandi enda var annað sætið í Moskvu bestu fréttir sem þjóðin hafði fengið í marga mánuði.
Það eru sem sagt tuttugu ár síðan Selma lenti í öðru sæti í Jerúsalem og tíu ár síðan Jóhanna Guðrún lenti í sama sæti. Nú er árið 2019 og þá er spurning hvort Hatara takist að leika eftir árangur Selmu og Jóhönnu Guðrúnar með því að ná öðru sæti. Eða hreinlega vinna keppnina.
Lendi Hatari í öðru sæti þá er komið ákveðið mynstur, á tíu ára fresti lendir íslenska framlagið í einu af efstu sætunum. Sem þýðir að Júróvisjónhappatala okkar Íslendinga er 9. Því er um að gera að láta Gleðibankaheilkennið grípa sig og undirbúa ærlegt Júrópartí um miðjan maí ef ske kynni að Júróvisjónlukkan og talan níu verði með okkur í liði. Hvað sem fólki kann að finnast um Hatara þá gæti Júrólukkan fleytt þeim ansi langt á stigatöflunni. Og tryggt gott partí í Reykjavík 2020.
Hvað sem veldur, hvort sem um tilviljun er að ræða eða ekki, þá verða Íslendingar nefnilega ógeðslega góðir í Júróvisjón á tíu ára fresti. Sem er merkilegur hæfileiki!
Athugasemdir