Gísli Garðarsson, varaþingmaður Vinstri grænna, mun styðja vantrauststillögu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra ef til hennar kemur. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem kveðinn var upp í morgun var íslenska ríkið dæmt brotlegt vegna vinnubragða Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði fjóra dómara við Landsrétt í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017.
Gísli tók sæti í gær fyrir Andrés Inga Jónsson en er í þeirri óvenjulegu stöðu að sitja á Alþingi fyrir flokk sem hann hefur sagt sig úr. „Ég sagði mig úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði við ríkisstjórnarmyndun vegna afstöðu minnar til ríkisstjórnarinnar og þar með talið dómsmálaráðherra vegna skipunarinnar í Landsrétt og fjármálaráðherra eftir Panamaskjölin,“ segir Gísli í samtali við Stundina. „Sú afstaða hefur ekki breyst.“
Andrés Ingi og Rósa Björk Brynjólfsdóttir voru einu þingmenn Vinstri grænna sem kusu með vantrauststillögu sem borin var upp á dómsmálaráðherra í mars í fyrra. Höfðu þá dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að embættisfærslur ráðherra í Landsréttarmálinu hefðu falið í sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Níu þingmenn flokksins vörðu hana vantrausti.
Gísli mun sitja fundi þingflokks Vinstri grænna. „Ég hef ekkert heyrt í hinum þingmönnunum og mundi vilja heyra hvernig hljóðið er í þeim,“ segir hann. „Þetta er búin að vera fjörugri vika en ég bjóst við.“
Athugasemdir