Verklag Alþingis við skipun landsréttardómara, þar sem kosið var um alla umsækjendur í einu í stað þess að taka afstöðu til skipunar hvers dómara fyrir sig, fól í sér lögbrot og alvarlegan ágalla á skipunarferlinu og trúverðugleika þess.
Mannréttindadómstóll Evrópu leggur áherslu á þetta í dómi sínum í Landsréttarmálinu sem kveðinn var upp í morgun. Að mati dómsins brugðust bæði framkvæmdarvaldið og löggjafinn þegar skipað var í Landsrétt.
Fyrir vikið teljast fjórmenningarnir sem valdir voru í trássi við mat hæfnisnefndar ekki hafa verið skipaðir samkvæmt lögum. Brotið hefur verið gegn rétti dómþola þeirra réttlátrar málsmeðferðar fyrir óhlutdrægum og sjálfstæðum dómstól.
Unnur Brá Konráðsdóttir var forseti Alþingis þegar atkvæðagreiðslan fór fram árið 2017 og bar upp tillöguna um að kosið yrði um alla dómara í einu. Nú er hún aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis varði sérstaklega hvernig staðið var að atkvæðagreiðslunni á sínum tíma og sendi skrifstofa Alþingis forseta Íslands greinargerð þar sem verklagið var réttlætt. „Ég get aðeins sagt að það var mjög vandað til undirbúnings atkvæðagreiðslunnar á fimmtudaginn og hugað vel að öllum atriðum og orðalagi,“ sagði Helgi í viðtali við Mbl.is eftir að Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands sem tók þátt í að semja frumvarp til laga um nýtt millidómsstig, hafði bent á að Alþingi hefði ekki farið að lögum við meðferð málsins.
Hæstiréttur komst síðar að þeirri niðurstöðu að Alþingi hefði brotið lög með því að kjósa um alla dómarana í einu en ekki hvern og einn. Mannréttindadómstóllinn bendir sérstaklega á þetta og telur að með þessu hafi Alþingi skaðað trúverðugleika skipunarferlisins.
Athugasemdir