Íslenska ríkið braut gegn rétti manns til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi þegar dómari sem dómsmálaráðherra hafði skipað með ólögmætum hætti við Landsrétt dæmdi í máli hans.
Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í dómi sem kveðinn var upp í Strassborg rétt í þessu. Telst Ísland hafa brotið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en ákvæðið veitir hverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
„Sú staðreynd ein og sér að dómari, sem hefur ekki verið skipaður með löglegum hætti í skilningi 6. gr. sáttmálans, dæmi í sakamáli nægir til að komist sé að þeirri niðurstöðu að framið hafi verið brot gegn greininni í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins,“ segir meðal annars í dóminum.
Þótt málið varði að nafninu til dóm Arnfríðar Einarsdóttur í umferðarlagabrotamáli Guðmundar Andra Ástráðssonar, skjólstæðings Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns fyrir Landsrétti, hefur hinn nýuppkveðni dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gríðarlega þýðingu fyrir íslenskt réttarkerfi.
Annars vegar fyrir dómþola í Landsrétti og hins vegar fyrir þá fjóra dómara sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra skipaði við dómstólinn í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017.
Eins og íslenskir dómstólar hafa margstaðfest vanrækti dómsmálaráðherra rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við skipun dómara í Landsrétt og sýndi ekki fram á að þeir dómarar sem hún valdi væru hæfustu umsækjendurnir. Fyrir vikið var brotið gegn öðrum umsækjendum um dómarastöðurnar og hafa þeim verið dæmdar bætur.
Nú liggur fyrir að með lögbroti dómsmálaráðherra og setu hinna ólöglega skipuðu dómara í réttinum hefur einnig verið brotið gegn mannréttindum fólks sem hefur verið dæmt í Landsrétti síðan dómstóllinn tók til starfa.
Má því vænta þess að farið verði fram á endurupptöku og miskabætur í fjölda mála sem fjórmenningarnir hafa dæmt. Af 61. gr. stjórnarskrárinnar leiðir þó að dómurunum fjórum verður ekki vikið úr embætti nema með dómi.
Athugasemdir