Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ósmekklegt að hlakka til verkfalla, enda valdi þau tjóni.
Af honum má helst skilja að láglaunakonurnar sem leggja niður störf í dag ættu að sitja heima með samviskubit gagnvart atvinnurekendum.
En er endilega ósmekklegt að hlakka til verkfalla?
Að fagna aðgerðum sem eru studdar af 89 prósentum félagsmannanna sem greiddu atkvæði um þær?
Verkfallsaðgerðirnar í dag byggja á samstöðu fólks sem hingað til hefur látið lítið fyrir sér fara. Nú rís það upp og lætur finna fyrir því að það er til.
Í hvert skipti sem Samtök atvinnulífsins tala um tjónið sem verkföllin valda, þá minna þau okkur á hvað störf þessa fólks skipta miklu máli. Þetta er fólkið sem hefur borið uppi ferðamannagóðærið án þess að fá greidd mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.
Meðan laun þingmanna og ríkisforstjóra hækkuðu um 60 prósent frá 2014 til 2017 hækkuðu lágmarkslaun um 24 prósent og meðallaun ræstingarfólks um 16 prósent.
Hátekjufólkið fékk skattbyrði sína lækkaða á þessu tímabili meðan skattbyrði láglaunafólksins jókst, láglaunafólksins sem – ólíkt fína fólkinu – er alla jafna fast á skemmdum leigumarkaði sem étur upp megnið af ráðstöfunartekjum þess.
Hvers vegna ætti þetta fólk ekki að fara í verkfall þegar kjaraviðræður sigla í strand? Þegar atvinnurekendur bjóða þorra launafólks ekki annað en kaupmáttarrýrnun næstu árin?
„Mér finnst ekki við hæfi að fólk hlakki til verkfalla,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson.
En er það við hæfi að hann tali yfir hausamótunum á lágtekjufólki og fulltrúum sem það hefur kosið sér – felli dóma um hvernig er við hæfi að því líði?
Það er að minnsta kosti asnalegt.
Fólkið sem fer í verkfall í dag má nefnilega alveg bera höfuðið hátt.
Verkföll valda tjóni segir Halldór Benjamín, en það voru einmitt verkföll og harkaleg verkalýðsbarátta sem færðu vinnandi fólki réttinn til hvíldar, sæmilegs aðbúnaðar og frítíma, og það sem meira er: aukna hlutdeild í verðmætunum sem það skapar sjálft.
Án harkalegrar verkalýðsbaráttu væru flest okkar réttlausir vinnuþælar. Það má alveg brosa meðan verkfallsvopninu er beitt, því verkföll knýja fram breytingar sem gera heiminn að betri stað.
Athugasemdir