Ég hef stundum rifjað upp í pistlum og greinum síðustu árin hvernig ég vaknaði á fullorðinsárum, og þó frekar seint, við vondan draum hvað snerti þau viðhorf til samfélagsins sem ég lærði í skóla. En þó væri kannski réttara að segja, hvernig ég vaknaði loksins af góðum draumi. Og horfðist í augu við raunveruleikann.
Ég er fæddur 1960, ekki nema 16 árum eftir að blautur fáni íslenska lýðveldisins var hafinn til himins á Þingvöllum til marks um endanlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Mín kynslóð fór enn í spariföt 17. júní og við fórum í skrúðgöngu. Í skólanum kringum 1970 lærði ég að allt væri best á Íslandi.
Það var nánast partur af pensúminu.
Engin spilling á Íslandi
Á Íslandi er besta menntakerfi í heimi. Þetta sögðu kennararnir blákalt. Þetta sögðu stjórnmálamennirnir, þetta sagði fólk í blöðunum og útvarpinu.
Ókei, sagði ég, mikið er ég heppinn að hafa fæðst á Íslandi. En ekki nóg með það. Á Íslandi ríkir jafnrétti. Á Íslandi er líka besta heilbrigðiskerfi í heimi. Svoleiðis það langbesta. Nú, en ég heppinn aftur! Og félagslega kerfið, það ber af sams konar kerfum í útlöndum eins og gull af eiri. Svo er engin stéttaskipting á Íslandi, bara alls engin, það er nefnilega svo frábært. Eða spilling, nei, við þekkjum ekkert slíkt hér, aldrei hefur nokkur Íslendingur til dæmis boðið eða þegið mútur. En vitiði, börnin góð, slíkt er heilmikið vandamál í öðrum löndum, hugsið ykkur!
Svona berum við af á Íslandi, ójá. Og aldrei hafa til dæmis verið skrifaðar í veröldinni aðrar eins bækur og Íslendingasögurnar!
Orðalag lagt á hilluna
Smátt og smátt fór seinna að renna upp fyrir mér að þessi skólalærdómur um að allt væri best á Íslandi var meira og minna tóm tjara, þótt vissulega hafi Íslendingar það gott miðað við margar aðrar þjóðir. En þessar blekkingar eða sjálfsblekkingar urðu ótrúlega lífseigar og komu held ég í veg fyrir að á mörg vandamál væri ráðist af alvöru. Til hvers að berjast gegn spillingu í landi þar sem er engin spilling? Til hvers þarf að laga félagslega kerfið, það er nú þegar svo miklu betra en annars staðar?!
Og á einu sviði voru blekkingarnar sérlega skaðlegar.
Það var nefnilega ekkert fátækt fólk á Íslandi.
Það var nefnilega ekkert fátækt fólk á Íslandi.
Ég segi það satt, ég lærði það í skóla. Og ekki bara í skólanum, í blöðunum var aldrei talað um fátækt fólk á Íslandi nema þá í gamla daga. Stjórnmálamenn hreyktu sér af því. Mér finnst þetta viðhorf með ólíkindum þegar ég pæli í því. Ég trúði því lengi, lengi að fátækt hefði verið útrýmt á Íslandi. Þetta orðalag var varla notað um nútíma Íslendinga í nokkra áratugi. Það var nær alveg lagt á hilluna.
Varla einu sinni í Þjóðviljanum
„Hinir lægst launuðu … þeir sem minnst mega sín …“ svona mátti tala en það mátti ekki tala um fátækt fólk á Íslandi. Enda var það ekki gert, varla einu sinni í Þjóðviljanum, sem kallaði sig þó málsvara þeirra sem minnst máttu sín. Það var einhvers konar móðgun við lýðveldið Ísland að viðurkenna að hér væri til fátækt, nei, henni var útrýmt með heimastjórninni og í síðasta lagi á kreppuárunum. Þó man ég braggahverfin, þó fylgdist ég með mömmu sem formanni Félags einstæðra foreldra reyna að hjálpa bláfátækum einstæðum mæðrum upp úr 1970.
Nei, þær voru ekki fátækar, þær voru hinar lægst launuðu.
Ég man að mér hnykkti meira að segja við árið 1976 þegar út kom bókin Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Maðurinn talaði um sig og sína sem fátæklinga! Gat það verið satt? En hann ólst náttúrlega upp í gamla daga, áður en við útrýmdum fátæktinni!
Þessi áhersla samfélagsins á að viðurkenna ekki að fátækt væri til leiddi svo auðvitað til þess að fólk fór sjálft að neita að viðurkenna að þetta orð gæti átt við það.
Hér er enginn fátækur
Það hentaði yfirstéttinni ágætlega, þeirri stétt sem meðal annars makaði krókinn á misrétti og spillingu, og gerir enn. Nei, við þurfum ekkert að hafa of miklar áhyggjur, allir hafa það gott á Íslandi, hér er enginn fátækur.
Þetta viðhorf er enn við lýði hjá Samtökum atvinnulífsins og stjórnmálaarmi þeirra, Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavíkurborg er meira að segja svo ósvífinn að hann leggur fram tillögur um útsvarslækkun sem mun gagnast þeim ríku mest en draga úr félagslegri þjónustu við fátækt fólk.
Og þetta á að heita innlegg í kjarabaráttu „hinna lægst launuðu“!!
Meðal annars í trausti þess að hinir fátæku kunni ekki við að viðurkenna sig fátæka. Og berjist því ekki af fullum krafti gegn fátækt (eða misrétti eða spillingu).
En er það ekki að breytast, loksins?
Athugasemdir