Flugsveit ítalska flughersins kemur til landsins vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Íslandi og tekur verkefnið um mánuð. Alls munu allt að 140 liðsmenn ítalska flughersins taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Aðflugsæfingar flugsveitarinnar munu fara fram á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum 11. til 15. mars. Flugsveitin kemur til landsins með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.
„Verkefnið verður framkvæmt með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland,“ segir í tilkynningunni. „Flugsveitin verður staðsett á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Ráðgert er að verkefninu ljúki um miðjan apríl. Verkefnið er framkvæmt af Landhelgisgæslu Íslands í samvinnu við Isavia.“
Athugasemdir