Ég hafði nýverið lokið við að lesa sláandi grein um frönsku nettröllaklíkuna La Ligue du LOL í sænska dagblaðinu og var í miðjum mjög svo óglamúrus bleiuskiptingum á barni þegar blaðamaður á bandarísku glamúrtímariti hafði samband við mig. Hún vildi ræða Klausturmálið. „Kom það þér á óvart, hvernig þessir kjörnu fulltrúar töluðu um kvenkyns samstarfsfólk sitt?“ spurði hún.
Útilokandi hópur
Ég komst ekki hjá því að bera málin tvö saman. Fyrir þá sem ekki vita var La Ligue du LOL (eða LOL-klíkan) frönsk Facebook-grúppa sem var stofnuð 2009 af ungum manni að nafni Vincent Glad og félögum hans, sem allir áttu það sameiginlegt að vera hvítir á hörund og starfa innan fjölmiðla og almannatengsla. Þetta voru um 30 manns sem voru í sömu partíkreðsunni, kepptust um sömu störfin hjá fjölmiðlum og komust smám saman í eftirsóttar stöður. La Ligue du LOL-meðlimir voru „digitally competent“, eða stafrænt slyngir, og voru með marga fylgjendur á Twitter. Helsta viðfangsefni LOL-klíkunnar var að hæðast að fólki á hátt sem yrði ekki talinn viðeigandi opinberlega. Marlène Coulomb-Gully, fjölmiðlafræðingur við Toulouses-háskóla, segir hópinn hafa verið týpískan karlaklúbb. „Tilvist hans gekk út á að útiloka aðra – í þessu tilviki alla sem ekki þóttu karlmannlegir, sem ekki voru hvítir, ekki frá París og að sjálfsögðu allar konur,“ sagði hún í viðtali við fjölmiðla.
„Tilvist hans gekk út á að útiloka aðra – í þessu tilviki alla sem ekki þóttu karlmannlegir, sem ekki voru hvítir, ekki frá París og að sjálfsögðu allar konur“
Eitrað andrúmsloft
Á stuttum tíma hafði þróast eitrað andrúmsloft innan hópsins þar sem rasismi, kvenfyrirlitning og hómófóbía var flokkað sem „húmor“ og flestar skotskífurnar voru femínistar, aktívistar, blaðamenn og rithöfundar. Karlarnir skrifuðu undir eigin nafni á samfélagsmiðlum en notuðust líka við falska Twitter-reikninga þar sem þeir „retweetuðu“ efni hver frá öðrum. Nethatur þeirra fékk þannig mikla útbreiðslu og þróaðist yfir í klassískt einelti. Sumar af konunum sem urðu fyrir barðinu á þeim á netinu urðu einnig fyrir áreitni af hálfu karlanna þegar þær urðu á vegi þeirra í eigin persónu. Femínistinn, rithöfundurinn og líkamsvirðingarsinninn Daria Marx segir: „Dag einn tóku meðlimirnir klámmynd af feitri, ljóshærðri konu sem líkist mér og hófu að dreifa henni á Twitter með þeim orðum að þeir hefðu fundið kynlífsmyndband með mér í aðalhlutverki.“
Falskt atvinnuviðtal
En LOL-klíkan notaðist ekki einungis við stafrænt kynferðisofbeldi heldur líka lygar og auðmýkingu. Þannig boðuðu þeir fjölmiðlakonuna Florence Porcel, sem hafði orðið fyrir ýmiss konar svívirðingum af hálfu hópsins, í atvinnuviðtal sem var uppspuni frá rótum. Porcel, sem taldi að hin virta sjónvarpsstöð Canal+ væri að bjóða sér vinnu, kveðst hafa grátið af niðurlægingu í þrjá daga eftir að hópurinn setti leynilega upptöku úr falska atvinnuviðtalinu á netið, í því skyni að auðmýkja hana. Á bak við þetta fólskuverk var David Doucet, sem þangað til fyrir skemmstu gegndi stöðu yfirritstjóra menningarblaðsins Les Inrockuptibles.
„Þetta var heilt ár af áreitni og það gróf undan sjálfstrausti mínu og getu minni sem blaðamanns.“
Afleiðingar árásanna
Capucine Piot, bloggari, varð fyrir grófu aðkasti hópsins sem lauk með því að einn karlanna laug því að henni að hann væri með eyðni, eftir að hún svaf hjá honum. Eineltið og áreitnin gat birst í hundruðum athugasemda á dag, á margra mánaða skeiði. Blaðakonan Lucile Bellan, sem einnig varð fyrir aðkasti hópsins, sagði á Twitter: „Þetta var heilt ár af áreitni og það gróf undan sjálfstrausti mínu og getu minni sem blaðamanns.“ Margar fjölmiðlakvennanna sem hópurinn tók fyrir hafa lýst því hvernig þær misstu flugið, urðu félagsfælnar og kulnuðu í starfi.
En kvenhatrið hafði ekki slæm áhrif á feril karlanna. Þvert á móti fengu La Ligue du LOL-meðlimir vaxandi völd og áhrif, þeir komust í stjórnunarstöður hjá fjölmiðlum á borð við Slate, Libération, Les Inrockuptibles og á fríblaðinu 20 minutes, svo dæmi séu nefnd.
Þetta gerði þolendum þeirra ennþá erfiðara fyrir. „Við vildum sjálfar geta sótt um vinnu á þessum miðlum og vorum skelfilega hræddar við þá og völdin sem þeir bjuggu yfir,“ segir blaðamaðurinn Nora Bouazzouni.
Rannsókn hafin
Hingað til hafa að minnsta kosti tíu af meðlimum La Ligue du LOL þurft að yfirgefa vinnustaði sína, sumir fyrir fullt og allt, aðrir á meðan rannsókn á máli þeirra stendur yfir. Sumir hafa eytt tístum sínum af Twitter og birt opinberar afsökunarbeiðnir, en fyrir marga þolendur berast þær tíu árum of seint. Sé Frakkland borið saman við Norðurlönd, á borð við Svíþjóð og Ísland, fékk #metoo-hreyfingin ekki mikinn meðbyr. Fjölmiðlafræðingurinn Marlène Coulomb-Gully segir: „Metoo hefði svo sannarlega getað verið fyrirferðarmeiri í frönskum fjölmiðlum. La ligue du Lol sýnir að eflaust var vilji á ritstjórnum til þess að ritskoða hreyfinguna og halda aftur af henni.“
Að níða keppinautana
Í þeim greinum um LOL-klíkuna sem ég hef lesið í stórum fjölmiðlum hrista greinarhöfundar hausinn og spyrja: Hvernig tókst þessum körlum að klífa metorðastigann svona hratt þrátt fyrir stæku kvenfyrirlitninguna og fordómana sem þeir bjuggu yfir?
„Ein þeirra er sú að stíga á axlir keppinauta sinna, grafa undan þeim, tala illa um þá, snúa fólki gegn þeim og veikja sjálfstraust þeirra“
Ég tel að í ljósi Klausturmálsins, LOL-klíkunnar, Harvey Weinstein, Donald Trump, R. Kelly og mýmargra annarra dæma að tími sé kominn til að horfast í augu við veruleikann. Í stað þess að spyrja hvernig viðkomandi valdakarlar komust til metorða þrátt fyrir kvenfyrirlitningu sína, ættum við fremur að spyrja okkur hvernig kvenfyrirlitning skilar körlum með tiltekin viðhorf á toppinn í valdastiganum jafn oft og raun ber vitni. Ekki þrátt fyrir kvenfyrirlitningu, heldur þvert á móti vegna hennar. Hægt er að komast á toppinn með ólíkum leiðum. Ein þeirra er sú að stíga á axlir keppinauta sinna, grafa undan þeim, tala illa um þá, snúa fólki gegn þeim og veikja sjálfstraust þeirra. Í dag eru konur í töluverðum meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólanámi í nær öllum námsgreinum. Hugsanlega finnst ákveðnum hópi karla það ógna ríkjandi hefðum og því verðugt verkefni að draga tennurnar úr keppinautum sínum?
Ekki boðið með
Fyrir nokkrum árum spurði ég harðduglega fréttakonu hvort hún ætlaði ekki að sækjast eftir nýrri og eftirsóknarverðri stöðu á fjölmiðlinum þar sem hún vann. Hún sagði jú, vissulega ætlaði hún að sækja um, en hún vissi að hún fengi ekki stöðuna. Þegar ég spurði hvers vegna, horfði hún á mig vonsviknum augum, eins og ég ætti að vita betur og svaraði: „Því mér er aldrei boðið í veiðiferðirnar, Þórdís.“
Forskot á atvinnumarkaði
Atvinnumarkaðurinn líkt og við þekkjum í dag er afurð iðnbyltingarinnar og sérhæfingarinnar sem hún hafði í för með sér. Almenn þátttaka kvenna á atvinnumarkaði hófst þó ekki fyrr en um miðja síðustu öld, svo karlar höfðu um það bil einnar og hálfrar aldar forskot á konur og voru búnir að móta metorðastigann, viðhorfin og vinnustaðamenninguna eftir eigin höfði þegar þær mættu til leiks. Það skyldi því ekki koma neinum á óvart að kerfið sem karlar hönnuðu skuli vera sniðið að þeirra þörfum og reynsluheimi fremur en kvenna, né að konum hafi mætt stæk kvenfyrirlitning víða á atvinnumarkaðnum. Sumar leikreglurnar voru skrifaðar, líkt og að metnaður og áreiðanleiki borgi sig. Aðrar leikreglur voru óskráðar, líkt og að það sé kvenmannsstarf að hella upp á kaffi og vaska upp fyrir kollegana og að næsta stöðuhækkun fari til starfsmannsins sem forstjóranum fannst skemmtilegastur á golfvellinum eða í gufubaðinu. Með öðrum orðum; á stöðum sem konum var sjaldan eða aldrei boðið með á. Í dag, þegar það er ekki lengur löglegt að neita konum um aðgang að golfklúbbum, færa karlaklúbbarnir sig einfaldlega inn í lokaða hópa á samfélagsmiðlum þar sem þeir halda áfram að tryggja völd sín með því að viðhalda viðhorfum sem gera lítið úr konum og draga úr möguleikum þeirra, ef marka má LOL-klíkuna. Eftir að mál hennar komst í hámæli hafa margir aðrir karlahópar verið afhjúpaðir, svo sem Radio Beer Football-hópurinn, þar sem um það bil tuttugu karlkyns starfsmenn fjölmiðilsins Huffington Post France deildu efni sem einkenndist af kvenfyrirlitningu og gáfu samstarfskonum sínum einkunn byggða á útliti þeirra og klæðaburði – rétt eins og Klausturkarlarnir gerðu þegar talið barst að bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum. Í Frakklandi þykir ekki lengur ásættanlegt að karlar í valdastöðum stundi slíka hlutgervingu. Tími hinna „klikkuðu kunta“ er loks að renna upp þar í landi, með uppreisn æru fyrir viðkomandi konur.
Kvenfyrirlitning verðlaunuð
Staðreyndin er samt sem áður sú að við höfum ekki bara leitt kvenfyrirlitningu hjá okkur í gegnum tíðina, við höfum raunverulega verðlaunað hana. Við hömpum heimspekikenningum manna sem staðhæfa að konur séu einungis vanskapaðir karlar. Við setjum þá framan á símaskrána og gerum þá að metsöluhöfundum eftir að þeir smætta konur niður í ílát, kalla stjórnmálakonur portkonur og stinga upp á að þeim sé nauðgað til að „þagga endanlega niður í þeim“. Við kjósum þá í valdamestu embætti heims eftir að við heyrum upptökur af þeim að stæra sig af kynferðisofbeldi í garð kvenna. Við kaupum list þeirra dýrum dómum þótt þeir kalli konur kuntur, tíkur og dyramottur. Við sendum þá með pomp og prakt á stærstu tónlistarviðburði heims eftir að þeir ávarpa útihátíðargesti með orðunum „herrar mínir og hórur“. Við sæmum þá Óskars- og Grammy-verðlaunum þrátt fyrir vitneskjuna um að þeir nauðgi táningsstúlkum.
Ætti ekki að koma á óvart
„Kom það þér á óvart, hvernig þessir kjörnu fulltrúar töluðu um kvenkyns samstarfsfólk sitt?“ spurði bandaríski blaðamaðurinn. Líkt og meirihluta íslensku þjóðarinnar fannst mér ummæli Klausturmanna sláandi gróf. En það ætti ekki lengur að koma okkur á óvart að karlar, sem hafa komist á toppinn í valdastrúktúrum sem voru hannaðir af körlum, í heimi þar sem kvenfyrirlitning er viðtekin og refsilaus, skuli smætta samstarfskonur sínar niður í „skrokk sem typpið á mér dugir í“, svo vitnað sé í Bergþór Ólason þingmann. Sem meirihluta þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd fannst ekki einu sinni að ætti að missa nefndarformennsku sína í kjölfarið. Spurningin er ekki hvort kvenfyrirlitning fyrirfinnist hátt og lágt í heiminum, heldur hvenær við hættum að hampa þeim sem eru haldnir henni.
Athugasemdir