Frá og með 18. mars og til ótilgreinds tíma munu strætóbílstjórar og aðrir félagsmenn Eflingar hjá Almenningsvögnum Kynnisferða hætta að sinna eftirliti með greiðslu fargjalds.
Frá 23. mars til 29. mars munu svo bílstjórarnir stöðva bifreið á stoppistöð í 5 mínútur á hverjum degi kl. 16 auk þess sem hætt verður að þrífa bifreiðarnar að utanverðu.
Þetta er á meðal þeirra vinnustöðvunaraðgerða sem samninganefnd Eflingar leggur til. Nefndin samþykkti á fundi sínum í gær, 28. febrúar, að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá hópbifreiðafyrirtækjum og starfsmönnum 40 hótela. Einungis þeir félagsmenn sem verkfallsboðunin tekur til greiða atkvæði.
Nái tillögurnar fram að ganga verður boðað til fullrar vinnustöðvunar frá miðnætti til miðnættis þann 22. og 28.-29. mars, og 3.-5., 9.-11., 15.-17. og 23.-25. apríl. Ótímbundin vinnustöðvun yrði svo boðuð frá og með 1. maí.
Örverkfallsaðgerðir rútubílstjóra hjá öðrum fyrirtækjum sem ekki sinna áætlunarferðum innanbæjar undir merkjum Strætó BS eru um margt svipaðar þeim sem starfsmenn Kynnisferða myndu ráðast í.
Í tillögunum felst meðal annars að starfsmenn munu einvörðungu sinna störfum sem tilgreind eru í starfslýsingu þeirra og ekki skoða farmiða né fara yfir farþegalista að undanskyldri farþegatalningu sem er nauðsynleg af öryggisástæðum.
Hjá hótelstarfsmönnum birtast vinnustöðvunaraðgerðirnar í fyrstu með þeim hætti að klósett og sameiginleg rými verða ekki þirifin og morgunverði gesta ekki sinnt.
Uppfært kl. 13:40:
Efling hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Verkafólk á lægstu launum í röðum Eflingar hefur stigið fram og skipulagt ýmsar nýstárlegar verkfallsaðgerðir sem eru hluti af verkfallsáætlun Eflingar. Bílstjórar á einkareknum strætóleiðum, sem starfa undir miklu álagi og verða fyrir ítrekuðum brotum á kjarasamningi, hafa lagt til fargjaldaverkfall sem hefst 18. mars. Þetta verkfall er viðbót við hefðbundnar vinnustöðvanir bílstjóra Eflingar.
Hótelstarfsfólk mun gera mikilvægi starfa sinna ljóst á afgerandi máta með því að hætta hluta þeirra, af stigvaxandi þunga. Til að mynda munu þau hætta klósettþrifum og leggja niður störf tengd morgunverði, þar til ótímabundið verkfall hefst á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí.
Þessar aðgerðir eru til viðbótar við hefðbundnar vinnustöðvanir sem eru samræmdar með VR. Samninganefnd Eflingar samþykkti tillögu um allar vinnustöðvanirnar á fundi sínum í gærkvöldi.
Aðgerðir vorsins hefjast á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, í verkfalli sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í þessari viku. Þernur á hótelum, raddlaus og einangraður hópur, fékk þar tækifæri til að kjósa um verkfallið sitt þegar Eflingarbíllinn, færanlegur kjörstaður, fór á milli vinnustaða þeirra.
„Baráttuandi hótelstarfsfólksins sem við hittum á bíltúrnum hefur verið okkur mikill innblástur,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Við höfum leitast við að færa félagið til þeirra, að opna þeim dyr í þátttöku í samfélaginu. Verkföllin okkar miða að því að vera þátttökuverkföll, ekki eingöngu heimasetuverkföll, og eiga að vera sem mest í höndum félagsmannanna sjálfra. Við erum gífurlega stolt af því starfi sem þessi verkföll byggja á.“
Athugasemdir