Hluthafar í HB Granda fá greiddan 1,8 milljarða arð vegna rekstrarársins 2018 þann 30. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í ársreikningi HB Granda sem birtist í gær.
Af þessum tæplega 2 milljörðum munu 674 milljónir renna til Útgerðarfélags Reykjavíkur sem áður hét Brim. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er 75 prósenta eigandi félagsins en systkini hans, Sigurrós Kristjánsdóttir og Hjálmar Þór Kristjánsson eiga hvort um sig 12,5 prósenta hlut á móti honum. Aðrir stórir hluthafar í HB Granda eru lífeyrissjóðir, einkum Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður.
Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam 32,2 milljónum evra samkvæmt rekstrarreikningi, eða um 4,4 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist HB Grandi um 24,8 milljónir evra árið 2017. Eignir samstæðunnar í árslok námu 667 milljónum evra eða um 91 milljarði króna.
„Rekstrarafkoma HB Granda var ekki ásættanleg á árinu 2018. Hagnaður fyrirtækisins hefur verið að minnka á síðustu árum vegna styrkingar íslenskrar krónu og hærri veiðigjalda,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni í tilkynningu frá HB Granda. „Á seinni hluta ársins 2018 veiktist íslenska krónan og það styrkir útflutningsfyrirtæki. Árið 1992 fjárfesti HB Grandi í sjávarútvegsfyrirtæki í Síle. Þetta fyrirtæki seldi laxeldisfyrirtæki sitt á síðasta ári og fékk HB Grandi töluverðan hagnað af þeirri sölu og skýrir það að hluta góða afkomu á síðasta ársfjórðungi 2018.“
Guðmundur, stærsti eigandi HB Granda, var að meðaltali með 2,7 milljóna króna tekjur á mánuði árið 2017 samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Árið 2016 fékk hann meira en milljarð í fjármagnstekjur.
HB Grandi er það útgerðarfyrirtæki sem ræður yfir mestum aflahlutdeildum á Íslandi, en síðasta sumar tók Guðmundur við forstjórastöðu í fyrirtækinu. Umsvif hans í íslenskum sjávarútvegi eru þannig gríðarleg.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum Fiskistofu um aflahlutdeildir útgerða réð Brim, sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, yfir 3,71 prósentum aflaheimilda á Íslandi og Ögurvík, dótturfélag Brims, yfir 1,62 prósentum. HB Grandi, í 37 prósenta eigu Brims, fer með 10,4 prósent aflaheimilda og Vinnslustöðin, sem Brim á um 33 prósent hlut í, fer með 4,11 prósent. Samtals eru þetta um 20 prósent heildarkvótans í sjávarútvegi.
Athugasemdir