Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fulltrúi flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, mætti ekki á fund nefndarinnar þann 31. janúar þegar aflandskrónufrumvarp fjármálaráðherra var kynnt og embættismenn fjármálaráðuneytisins svöruðu spurningum nefndarmanna um efni þess og tilgang.
Sigmundur var einnig fjarverandi þegar frumvarpið var afgreitt úr nefndinni í síðustu viku og skilaði sjálfur engu minnihlutaáliti né lagði fram breytingartillögu.
Þingmenn Miðflokksins, með Sigmund í broddi fylkingar, lögðust í málþóf til að tefja afgreiðslu frumvarpsins í gær og töluðu nær sleitulaust í 14 klukkustundir. Þingfundi var ekki slitið fyrr en kl. 5:20 í morgun.
Seðlabankinn hafði hvatt þingheim til að samþykkja aflandskrónufrumvarpið áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisskuldabréfa rynni upp, sem var í gær, og sagt að ellegar væri hætta á að stórir aflandskrónueigendur leituðu út með fjármagn sitt í stað þess að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum. Fyrir vikið þyrfti Seðlabankinn að eyða mun meiri forða en áður til að koma í veg fyrir gengisfall krónunnar auk þess sem framboð erlends fjár á innlendum skuldabréfamarkaði myndi dragast umtalsvert saman.
Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að afnema fjármagnshöftin sem sett voru á í kjölfar falls íslensku bankanna árið 2008. Annars vegar er lagt til að við lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, bætist bráðabirgðaákvæði sem kveði á um þrenns konar heimildir til að losa svokallaðar aflandskrónueignir. Hins vegar eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem varðar reglur um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. „Miða breytingarnar að því að auka sveigjanleika á formi slíkrar bindingar, m.a. með því að heimila að bindingarskylda, sem hingað til hefur eingöngu verið mögulegt að uppfylla með innlögn á bundinn reikning, verði uppfyllt með endurhverfum viðskiptum með innstæðubréf Seðlabankans, sbr. 3. gr. frumvarpsins,“ segir í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um málið. „Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að fjárfestar eða fjármálafyrirtæki sem uppfyllt hafa bindingarskyldu á grundvelli núgildandi laga og eiga fjármuni á bundnum reikningum geti í kjölfar gildistöku frumvarpsins breytt fyrirkomulagi bindingar til samræmis við nýjar útfærslur.“
Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar voru lagðar til smávægilegar breytingar og lagt til að frumvarpið yrði samþykkt. Allir nefndarmenn samþykktu álitið að undanskildum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem var fjarverandi.
Athugasemdir