Um daginn heyrði ég þrjá þingmenn ræða kolsvarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi - eða öllu heldur skort á starfsemi - Fiskistofu. Þingmennirnir þrír voru allir sammála um að skýrslan sýndi graf alvarleg tíðindi um eina mikilvægustu eftirlitsstofnun landsins. Þá sem á að hafa eftirlit með og vera undir staða sjálfbærni obbans af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Í peningum skipta hagsmunirnir hundruðum milljarða ár hvert og í leiðinni framtíðartekjum af sjávarauðlindinni. Fullyrðingar stjórnvalda undanfarna áratugi um síminnkandi brottkast eru í besta falli óskhyggja eða bernsk trúgirni enda býr ekkert að baki þeirri fullyrðingu, engin vísindi, engar rannsóknir, bara spjall við hagsmunaaðila. Framhjálandanir og vigtarsvindl hafa verið látin næsta óátalin þrátt fyrir að fyrirkomulag þess sé eins og með brottkastið; peningalegur hvati til brota sé ótvíræður.
Eftirlitið er á sama tíma sagt ýmist lítið lélegt eða ekkert. Jafnvel einföldustu tölfræðiverkefni eins og þau að halda utan um kvótaeign einstakra fyrirtækja og þar með fylgja eftir lögum um hámark á kvótaeign einstakra fyrirtækja í sömu eigu, hefur mistekist - algjörlega.
Akkúrat þessi er niðurstaðan.
Einhver þingmannanna þriggja bar sérstakt lof á þingkonu fyrir að kalla eftir skýrslunni og virtist hljóta samþykki viðmælenda sinna. Hún hefði gert vel að koma málinu á hreyfingu.
Og það var vel. En hún er næsta grátleg sú einföldun sem í þessu fellst.
Sannleikurinn er nefnilega sá að til þess að þingmenn og stjórnvöld opnuðu augun fyrir lánleysi Fiskistofu; stofnun sem heyrir undir þá beint, þurfti meira en skýrslubeiðni eins þingmanns.
Það sem þurfti til var frásögn og vinna fjögurra manna sem kusu að stíga fram og lýsa því sem þeir sjálfur höfðu upplifað og tekið þátt í, ýmist innan Fiskistofu eða sem starfsmenn í þeirri grein sem stofnuninni bar að hafa eftirlit með.
Allir gerðu þeir það fyrir minna en ekkert. Raunar má færa rök fyrir því að þeir hafi allir fórnað margfalt því sem þeir fengu fyrir að stíga fram og segja frá.
Einn þeirra situr nú undir því að vera úthúðað og mannorð hans troðið ofan í svaðið af fyrrum vinnufélögum sínum og vinnuveitendum. Hann steig fram, framvísaði myndböndum og lýsti eigin þátttöku í brottkasti um borð í einu aflahæsta togskipi Íslandssögunnar.
Annar steig fram síðar með myndband sem sýndi brottkast í sama togara sumarið 2016, en kaus að njóta nafnleyndar.
Fyrir þetta fengu þeir ekkert, nema skít og skammir. Og fórnuðu afkomu möguleikum sínum líkast til, til frambúðar.
Fyrir þetta fengu þeir ekkert, nema skít og skammir. Og fórnuðu afkomu möguleikum sínum líkast til, til frambúðar. Æruna munu vesalingarnir sem eins og hýenur hlupu fram í kjölfar veiðileyfissviptingar togarans, líkast til ekki hafa af þeim, þrátt fyrir mikinn vilja.
Aðrir tveir fyrrum starfsmenn Fiskistofu stigu fram og lýstu því hvernig þeir hefðu reynt ítrekað að sinna störfum sínum í anda þeirra laga sem þó gilda um stofnunina, en ýmist verið stoppaðir af eða gert ómögulegt að sinna vinnu sinni. Stór brot og rannsóknir þeirra stöðvaðar án skýringa af forstjóra stofnunarinnar í samráði við ráðuneyti málaflokksins og ítrekaðar ábendingar þeirra um vanmátt, mannfæð og gölluð lög og reglugerðir ýmist hunsuð eða mætt með skömmum af yfirboðurum sínum.
Hvorugur þessara manna fékk nokkuð fyrir það að stíga fram og segja sannleikann, sem nú hefur allur verið staðfestur á skýrslu til þingsins. Báðir tóku þeir áhættu með því að segja frá. Ógnuðu eigin afkomu og lögðu eigið mannorð að vissu leyti undir.
Ég held það væri nær fyrir þingmenn að þakka þessum mönnum. Þó ekki væri nema með því að taka ekki undir þegar á þá er ráðist.
Ég held það væri nær fyrir þingmenn að þakka þessum mönnum. Þó ekki væri nema með því að taka ekki undir þegar á þá er ráðist.
Og hunskast svo til þess að setja hér lög um vernd uppljóstrara. Slík lagasetning er til um allan heim og er ekki sett af neinum mannúðarástæðum, heldur og miklu fremur til þess að verja sameiginlega sjóði landsmanna fyrir óráðsíu, spillingu og óþarfa fjáraustri.
Með því að gera fólki kleift að koma upp um og segja frá því þegar rangt er haft við (fjármununum sóað, lög eða reglur brotnar og stofnunum gert ófært að sinna skyldum sínum, með einhverjum hætti) án þess að hægt sé að hegna viðkomandi eða láta það hafa áhrif á starfsframa hans, eru margfalt meiri líkur á því að upp um slík mál komist. Frumvarp um þetta hefur legið tilbúið í tæpan áratug, óafgreitt.
Eftir hverju er beðið?
Athugasemdir