Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem reknir voru úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustursmálsins, hafa gengið til liðs við Miðflokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem þeir hafa sent frá sér. Miðflokkurinn er nú orðinn stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu með níu þingmenn.
„Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins. Við höfum sameiginlega sýn á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, yfirráð hennar á auðlindum sínum og mikilvægi vestrænnar samvinnu,“ segir í tilkynningu þingmannanna. „Við teljum að á vettvangi Miðflokksins styrkjum við stöðu okkar á Alþingi til að knýja á um framgang þeirra málefna, sem kjósendur treystu okkur fyrir í síðustu alþingiskosningum.“
Þingmennirnir segja áherslur sínar snúa að eindregnum stuðningi við láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi og þar eigi þeir samleið með Miðflokknum. „Við erum sammála um nauðsyn þess að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu og skapa öldruðum og öryrkjum tækifæri til að bæta hag sinn með aukinni vinnu án skerðingar almannatryggingabóta,“ segja þeir. „Við erum sammála um áherslur í málefnum hins sístækkandi hóps aldraðra sem geti notið ævikvöldsins á heimili sínu eins lengi og unnt er, með öruggu framboði hjúkrunarrýma þegar nauðsyn knýr á um slík úrræði.“
Voru beðnir að skipta í nóvember
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, hittu þingmennina á Klaustri bar 20. nóvember 2018. Þau skjölluðu Ólaf og Karl Gauta og lögðu hart að þeim að skipta yfir í Miðflokkinn. Samskiptin náðust á hljóðupptöku.
Fóru þingmenn Miðflokksins hörðum orðum um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins. Athygli vekur að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti komu Ingu nær ekkert til varnar en hlustuðu þöglir á þingmenn Miðflokksins úthúða henni. „Hún vill vel,“ sagði Ólafur Ísleifsson í eitt skiptið en að öðru leyti tók hann undir með Karli Gauta um að hún væri ófær um að gegna formennsku í Flokki fólksins.
„Hún getur þetta ekki. Hún getur talað um þetta, hún getur grenjað um þetta, en hún getur ekki stjórnað,“ sagði Karl.
Sögðu ekki á dagskrá að skipta um flokk
Stundin hafði samband við Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson. „Ég kem af fjöllum,“ sagði Karl þegar Stundin spurði hvort komið hefði til álita að hann og Ólafur skiptu um flokk. „Nei nei alls ekki, aldrei heyrt þetta.“
Ólafur Ísleifsson sagði að aldrei hefði komið til álita að sameina Miðflokkinn og Flokk fólksins. Þegar Stundin spurði hvort hann hefði einhvern tímann rætt við fulltrúa úr Miðflokknum um að skipta yfir í þeirra þingflokk, vildi Ólafur ekki neita því beint.
„Það er oft sagt við mann úr ýmsum flokkum hvort maður ætli ekki að koma yfir. Það er algengt í þinginu. Við svörum alltaf því að svona tilboð séu gagnkvæm. Við erum líka að reyna að fá mannskap yfir til okkar. Þetta er oft í hálfkæringi, þú heyrir það, svona komment fljúga.“
Aðspurður hvort hann yrði þá áfram í Flokki fólksins sagði hann að ekkert annað væri á dagskrá. „Við erum með uppbrettar ermar og fullar hendur og ærin verkefni fyrir það fólk sem sendi okkur þarna inn,“ segir hann. „Er ekki bara þannig að við ættum að bjóða Miðflokknum og Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum að sameinast undir forystu Flokks fólksins? Þetta eru nú hinir svona borgaralega sinnuðu flokkar. Er þetta ekki málið?“
Athugasemdir