Samdráttur í framboði flugsæta hjá WOW Air í sumar nemur 44 prósentum. Alls dregst framboð á flugsætum saman um 10 prósent miðað við í fyrra samkvæmt tilkynningu frá Isavia. Flugsætum fækkar úr 7,9 milljónum á sumaráætlun 2018 í 7,1 milljón flugsæta í ár.
Tölurnar gilda fyrir tímabilið apríl til október 2019. Icelandair áformar að auka framboð flugsæta um 14 prósent. Samdrátturinn hjá WOW Air nemur 44 prósentum, en hjá öðrum flugfélögum sem fljúga um Keflavíkurflugvöll verður samtals 4 prósenta samdráttur. Wizz air eykur sætaframboð um 15% og SAS um 22%, en félög eins og EasyJet, British Airways og Norwegian fækka sætum.
Samkvæmt áætlunum flugfélaganna fækkar flugsætum til og frá Bandaríkjunum um 29% og til og frá Bretlandi um 22%. Framboð á sætum til og frá Þýskalandi eykst um 10%, auk þess sem aukning er gagnvart Noregi, Sviss og Kanada. Mest framboð verður á flugsætum til og frá Kaupmannahöfn og eykst það um 9 prósent frá því í fyrra.
Athugasemdir