Ég er nýorðin fertug. Það var ekkert skelfilegt þótt ég hafi verið dálítið skjálfhent þegar ég vaknaði á afmælismorguninn. Þá fannst mér þetta dálítið yfirþyrmandi tilfinning en hún var fljót að hverfa.
Ég er líka bara þakklát fyrir að fá að verða fertug og er strax farin að hugsa um allt það sem ég ætla að gera á næsta áratug. Ég er til í að ferðast á nýja staði, prufa nýja hluti. Kannski kaupi ég mér jafnvel bara kajak, það er aldrei að vita.
Það eru akkúrat 30 ár á milli mín og mömmu og ég man svo vel eftir því þegar ég var tíu ára og hún fertug. Mér fannst það hár aldur, en mér finnst það ekki lengur. Mér finnst ég reyndar lítið hafa breyst síðan ég var tvítug en ég held samt að ég kunni betur að meta allt það sem ég á. Ég held að það sé kannski helsti þroskinn sem ég hef tekið út.
Ég held að ef ég hefði fengið að sjá sjálfa mig fertuga þegar ég var tvítug hefði ég fengið hláturskast. Ég hefði örugglega verið ánægð að sjá hvar ég er stödd en ég hefði pottþétt samt hlegið. Ég veit ekki af hverju … eða jú, ég veit af hverju, ég vil bara ekki segja það upphátt.
Athugasemdir