Ég verð voðalega örg þegar verið er að tala um launahækkanir. Ég held að fólk hafi lítið við þær að gera, því launahækkanir einar og sér hafa ekkert að segja. Sleppum þeim bara.
Ef laun verða hækkuð um fáein prósent smitast það bara út í þjóðfélagið – leiguverð hækkar, vextir hækka, allt hækkar og við verðum búin að tapa niður hverri einustu krónu um leið og við fáum hana.
Unga daman sem er að vinna með mér er einstæð móðir sem býr í 60 fermetrum. Hún borgar fyrir það 180 þúsund krónur. Hún kemst aldrei í eigið húsnæði, hún situr bara föst í þessu rándýra leiguhúsnæði.
Ég vil sjá ríkisstjórnina og verkalýðsfélögin fara í mikla uppbyggingu á húsnæði. Svo þarf að hækka persónuafsláttinn hjá öllum þeim sem hafa tekjur undir 500 þúsund krónum.
Fyrir utan þetta ætti að hækka örorkulífeyrinn og atvinnuleysisbæturnar. Það eru aðgerðir sem myndu bjarga mörgu fólki.
Hvort ég ætli að fara í pólitík sjálf? Nei, ég er orðin of gömul til þess. Ég ein og sér get heldur ekkert gert. Þau eru líka hörð þetta fólk hjá Eflingu, VR og Vilhjálmur uppi á Skaga. Þau þurfa bara að leggja enn meiri áherslu á íbúðamálin og einbeita sér að réttu úrræðunum.
Athugasemdir