Þetta gerðist allt sjúklega hratt. Allt í einu erum við búin að finna íbúð, gera tilboð og fá það samþykkt. Svo nú erum við með alla anga úti við að safna saman öllum þeim krónum sem við finnum, til að ná upp í útborgun og greiðslumat.
Við erum bíllaus svo staðsetningin skipti okkur öllu máli. Við vorum búin að sjá fyrir okkur að við þyrftum annaðhvort að fá okkur íbúð sem hentar okkar fjölskyldustærð, sem væri þá ekki á góðum stað, eða finna íbúð sem hentaði okkur illa en væri á góðum stað.
Svo fundum við fyrir tilviljun íbúð sem er fullkomin fyrir okkur. Hún hefur þann einstaka eiginleika að vera í miðbænum en samt ekki með baðherbergi sem maður rekur olnbogana í veggina á, þegar maður gengur inn á það.
Þannig að þetta verður að ganga upp. Ég er búin að vera að reyna að hugsa jákvætt um þetta, því ég trúi því að allt gangi betur þannig. Ég kyssti meira að segja pening um daginn – það var nú samt eiginlega bara til að stríða kærastanum mínum. Hann sagði að það væri ógeðslegt. „Veistu hvar þessi peningur hefur verið?“ sagði hann. Daginn eftir skoðuðum við þessa íbúð, gerðum tilboð í hana og fengum samþykkt kauptilboð. Kannski ekki beint peningar í vasann – en samt.
Athugasemdir