Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, hefur bent á sögur um meint kynferðisbrot hans um áratuga skeið. Hún var nauðungarvistuð sex sinnum á geðdeild, en fjórar beiðnir um nauðungarvistun, sem Stundin hefur undir höndum, bárust með faxi frá Jóni Baldvini á meðan hann var sendiherra erlendis og í litlum samskiptum við dóttur sína.
Hefur Aldís lengi mótmælt því að vera með geðsjúkdóm og lagt fram vottorð máli sínu til stuðnings. Hún hafi verið í litlum samskiptum við hann frá árinu 1991. Segist hún vonast til þess að faðir sinn stefni sér, svo hún geti lagt fram sönnunargögn um þöggun og valdníðslu.
Beiðnirnar um nauðungarvistun sendi Jón Baldvin á árunum 1998 til 2002, þegar hann var sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Fyrsta beiðnin er handskrifuð á bréfsefni hótelsins The Marquette í Minneapolis og dagsett 12. apríl 1998. „Hér með er staðfest, að ég, undirritaður, sem nánasti aðstandandi dóttur minnar, Aldísar Baldvinsdóttur, sem þarfnast nauðsynlega geðlæknishjálpar veiti fyrir mitt leyti heimild til að svipta hana sjálfræði tímabundið til þess að hún megi öðlast læknishjálp.“ Bréfið er stílað á dómsmálaráðuneytið og undirritað af Jóni Baldvini Hannibalssyni, Washington D.C.
Annað skjal, sem Stundin hefur undir höndum, er stimplað af lögreglustjóranum í Reykjavík og sýnir að aðkoma lögreglunnar að málinu var skráð í málaskrá sem „aðstoð við erlend sendiráð“. Jóni Baldvini var óheimilt að nota bréfsefni sendiráðsins og starfstitil sinn í persónulegum tilgangi.
Næsta bréf sendi Jón Baldvin 20. nóvember sama ár til geðdeildar Landspítalans með faxi frá sendiráðinu og undirritað af honum sem sendiherra. Segir í bréfinu að beiðnin um nauðungarvistun komi frá Aldísi sjálfri, auk þess sem henni fylgir beiðni um tímabundna sviptingu lögræðis hennar til „dómsmálayfirvalda“ ef þörf sé talin á vistun umfram skammtímavistun á geðdeild.
Þriðja bréfið sendi Jón Baldvin beint til Áslaugar Þórarinsdóttur, lögfræðings í dómsmálaráðuneytinu, 29. janúar 2001. Skrifar hann undir það sem sendiherra og er það sent með faxi á bréfsefni sendiráðsins. Það fjórða sendi Jón Baldvin vakthafandi geðlækni á Landspítalanum þann 12. apríl 2002. Aftur skrifar hann undir það sem sendiherra og sendir með faxi á bréfsefni sendiráðsins.
Aðstandendur almennt teknir trúanlegir
Að sögn þeirra geðlækna sem Stundin hefur rætt við og þekkja til málaflokksins eru aðstandendur almennt teknir trúanlegir hvað varðar lýsingar á andlegu heilsufari náinna ættingja. Það sé því ekki fyrr en eftir að lögregla hefur fært manneskju á geðdeild sem afstaða sé tekin til þess hvort þörf sé á frekari vistun. Samkvæmt lögum er krafa gerð um að manneskjan sé haldin „alvarlegum geðsjúkdómi“ eða alvarlegri fíkn til að vistun sé réttlætanleg.
Athugasemdir