Lögreglan á Akureyri hefur lokið rannsókn á smygli á eggjum úr friðuðum íslenskum fuglum. Embætti Tollstjóra sendi rannsókn á smyglinu til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Hið meinta eggjasmygl átti sér stað um borð í Norrænu í ágúst árið 2017.
Málið var sent til lögreglunnar í mars í fyrra eftir að Tollstjóri hafði verið með málið til meðferðar um hríð. „Rannsókn málsins hjá Tollstjóra lauk með því að ákveðið var að kæra hið meinta afbrot til lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og var málið sent lögreglustjóranum,“ segir í tölvupósti frá Gísla Gíslasyni, deildarstjóra rannsóknardeildar Tollstjóra.
Egg úr friðuðum fuglum geta gengið kaupum og sölum á dýru verði meðal safnara erlendis. Einnig er mögulegt að selja egg með ungum í erlendis, til dæmis fálkaegg, en búið var að blása úr þessum eggjum og var því um að ræða ætlaða safngripi.
Athugasemdir