Nokkrir starfsmenn Ríkisútvarpsins mótmæltu í haust fyrirhugaðri ráðningu Jóns Baldvins Hannibalssonar sem verktaka á Rás 1. Þetta herma heimildir Stundarinnar.
Jón Baldvin og eiginkona hans, Bryndís Schram, voru ráðin sem verktakar á RÚV í haust. Sunnudaginn 6. janúar síðastliðinn fluttu þau pistil á Rás 1 sem ber nafnið „Sagan séð út um glugga Síberíuhraðlestarinnar“. Fjallar hann um ferðalag þeirra í Asíu síðasta sumar.
Fjallað var um bréfasendingar Jóns Baldvins til Guðrúnar Harðardóttur, frænku sinnar á táningsaldri, í Nýju lífi árið 2012. Játaði Jón Baldvin dómgreindarbrest varðandi klúrar bréfaskriftir á meðan hann var sendiherra í Bandaríkjunum.
Í Stundinni lýsa fjórar konur kynferðislegri áreitni af hendi Jóns Baldvins. Umfjöllunina í heild má lesa í tölublaði Stundarinnar sem kom út í gær.
Dagskrárráð tók ákvörðun um þáttinn
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar segir Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, það rétt að skiptar skoðanir hafi verið um störf Jóns Baldvins á vegum RÚV.
Þröstur segir að Bryndís og Jón Baldvin hafi síðastliðið haust sent stofnuninni hugmynd að útvarpsþætti um ferðalagið. Þau hafi fengið greiðslur sem aðrir verktakar fái fyrir sambærilega þáttagerð á Rás 1, en Jón Baldvin hafi að öðru leyti ekki fengið greitt fyrir störf frá RÚV frá 2012, árinu sem greint var frá grófum bréfaskriftum hans til Guðrúnar Harðardóttur.
„Dagskrá og þáttagerð á Rás 1 og öðrum miðlum RÚV byggir á ritstjórnarlegu samtali sem er bæði mikið og opið,“ segir Þröstur. „Aðkoma Jóns Baldvins að nefndum þætti var rædd og voru skiptar skoðanir eins og um margt sem ratar á dagskrá í miðlum RÚV. Dagskrárráð Rásar 1 fjallar um dagskrá rásarinnar og ákvarðar hana en dagskráin er líka kynnt og rædd á ritstjórnarfundum rásarinnar. Jóladagskráin var sömuleiðis kynnt og rædd á opnum upplýsingafundi í byrjun desember sem var öllum starfsmönnum RÚV aðgengilegur.“
Athugasemdir