Flugfélagið Air Atlanta óttast að tapa samkeppnishæfni þegar kemur að flutningi hergagna verði málsmeðferðartími Flugmálastjórnar á beiðnum um slíkt lengdur. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um drög að reglugerð um flutning hergagna með loftförum.
Í drögunum er málsmeðferðartíminn lengdur úr 7 dögum í 14 daga. „Þessi lengdi málsmeðferðartími hefur áhrif á samkeppnishæfni félagsins þegar kemur að flutningi hergagna, enda koma slík tilvik oftast nær upp með skömmum fyrirvara og viðskiptavinir félagsins treysta á skjót viðbrögð við slíkum beiðnum,“ segir í umsögn flugfélagsins. Þess er farið á leit að tímarammanum verði ekki breytt.
Í drögunum er lagt til að reglugerðin nái til bæði flutnings hergagna um íslenskt yfirráðasvæði og með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd. Þá er nánar skilgreint hvað teljist hergögn. Loks er mælt fyrir um í hvaða tilvikum beri að hafna umsókn um leyfi til flutninga hergagna.
Athugasemdir