Þeófrastros skrifaði bók í Aþenuborg árið 319 fyrir okkar tímatal þar sem hann lýsti ýmsum manngerðum og kenndi þær við meðal annars við kvörtunargirni, blaður, smjaður, nísku og hroka. Margir hafa spreytt sig á bókmenntaformi Þeófrastrosar í gegnum aldirnar en það er gaman að bæta við karakterlýsingum í anda Forn-Grikkjans eftir því sem aldirnar líða. Sannleiksseggur verður nú nefndur til sögunnar.
Ég hef skrifað í Stundina um bullvirkjann í anda Þeófrastrosar. „… sá bullgjarni þvælir sig undan ábyrgðinni með því að rugla hugsanir fólks.“ Núna spratt fram ljóslifandi mannlýsing sem kenna má við sannleikssegg og er örugglega í systkinahópi bullvirkjans.
Sannleiksseggur þekkist á því að vera ævinlega að segja öðrum hvers eðlis hlutirnir eru. Hann hefur ekkert á móti óverðskuldaðri upphefð en finnst yfirleitt ekki mikið til um verk annarra koma (nema þá helst þegar þau valda óvinum hans skaða). Hann einkennist því óneitanlega af alvarlegum skorti á auðmýkt.
Sannleiksseggurinn hefur fáu að tapa og það er ekki úr háum söðli að falla, að minnsta kosti hvað snertir heiðarleika, skyldur og samkennd. Það er helst trúverðugleiki hans sem laskast endrum og eins þegar málflutningurinn er grandskoðaður.
Seggurinn þessi einkennist einnig af fífldirfsku við að grafa undan kerfum sem þjóna almenningi. Hann skóflar linnulaust undan tilteknum stofnunum, fjölmiðlum, stjórnsýslu og öðru sem fólk vill reiða sig á og flokkast yfirleitt sem nokkuð áreiðanlegar samfélagsstoðir.
„Markmiðið með lyginni er ekki að varpa skugga á staðreyndir heldur trúverðugleika annarra“
Þessi seggur hefur auðvitað sjálfútgefið leyfi til að blekkja ef þess gerist þörf. Hann lýgur ekki aðeins til um það sem aðrir sjá greinilega með eigin augum heldur líka um það sem engir sjá – vegna þess að hann segist hafa einkaaðgang að því. Hann telur fólki trú um að staðreyndir máls séu ekki að finna í opinberum gögnum heldur miklu fremur í leyndum gagnasöfnum sem hann hefur séð með eigin augum.
Hann heldur langar ræður þar sem þverstæður blómstra og vítahringir spinnast saman. Markmiðið með lyginni er þó ekki að varpa skugga á staðreyndir heldur á trúverðugleika annarra.
Sannleiksseggurinn er karakter sem gott er að geta borið kennsl á en það getur þó verið vandasamt. Hann sprettur úr margs konar valda- og áhrifahópum. Hann gæti verið úr stjórnmálum, fjölmiðlum eða viðskiptalífinu. Hann gæti verið leiðtogi eða leikmaður og jafnvel frjálslegur prófessor.
Sannleiksseggurinn ber ekki virðingu fyrir öðrum og þrátt fyrir nafnið er markmið hans alls ekki að leita sannleikans. Þetta er einmitt sérkenni hans: að vera sama um sannleikann og skeytingarlaus um rétt og rangt.
Heimsmynd hans hvílir á átökum og samkeppni um áheyrn og völd. Fólk skipar sér í lið og sannleiksseggurinn skreytir sig gjarnan með stolnum fjörðum til að fá meiri hlustun. Hann sleppir ekki takinu á stöðu sinni því hann treystir ekki á að lenda standandi vegna þess að óvissuþættir í málflutningi hans (bullinu) eru of margir.
Hann tekur ekki ábyrgð á gjörðum sínum eða orðum, fer undan í flæmingi sé að honum sótt og bendir þá á aðra. Hann er ekki einlæg persóna og heilindi eru ekki eftirsóknarverð dyggð í huga hans.
Hann er hvorki að leita að sjálfum sér né leitast hann við að verða góð og vitur manneskja. Nei, hann þrífst best á aðdáun annarra og vill sannfæra fólk um kosti sína, óháð sannreyndum og afrekum.
[Vafasamur karakter – en leggið ekki á flótta]
Sannleiksseggurinn er hættulegur því hann vill í eigingirni sinni mata fólk á sérvöldum staðreyndum til að hafa áhrif á hegðun þess og hugsun. Hver hópur hlustar á sinn eigin sannleikssegg en haldreipin renna þeim úr greipum um síðir.
Staðreynd er staðhæfing sem almennt er talin sönn, en tíðarandinn um þessar mundir er því miður hliðhollur þessum vafasama karakter. Sannleiksseggur vill aðeins hlaða undir sjálfan sig og er kennslubókardæmi um hverjum beri ekki að treysta. Hann treystir ekki einu sinni sjálfum sér vel, til að standa vörð um eigin fullyrðingar.
Lærdómar og kennsl
Ákaflyndi sannleiksseggsins við að segja öðrum hvernig hlutirnir eru, ásamt áberandi skorti á auðmýkt og ónæmi á sannleika og staðreyndum, eru þeir þættir sem berskjalda hann.
Athugasemdir