Forseti Alþingis og varaforsetar forsætisnefndar hafa sagt sig frá umfjöllun um Klaustursmálið.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Steingrími J. Sigfússyni þingforseta. Nefndarmenn töldu sig þurfa að meta hæfi sitt með hliðsjón af hæfisreglum stjórnsýslulaga og sögðu sig frá málinu, meðal annars vegna ummæla sem þau höfðu áður látið falla um framgöngu Miðflokksmanna á Klaustri.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í forsætisnefnd Alþingis, vildi ekki svara því, þegar Stundin hafði samband við hann fyrr í dag, hvort hann hefði sagt sig frá málinu. „Þetta er til umfjöllunar í forsætisnefnd og mér finnst ekki tímabært að ég tjái mig um þetta,“ sagði hann, aðspurður hvort skrif Viljans um málið ættu sér stoð í raunveruleikanum. „Ég vil nú helst ekki gera neinar athugasemdir við þetta eða tjá mig um þetta meðan þetta hefur ekki verið birt opinberlega af hálfu þingsins,“ sagði Guðjón.
Guðjón sagðist ekki geta staðfest fréttina. „Nei nei, þetta er til umfjöllunar í nefndinni og þetta eru viðkvæm og erfið mál og best að segja sem minnst í þessari stöðu.“ Ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon en Þórunn Egilsdóttir staðfesti að hún hefði sagt sig frá málinu, enda vildi hún ekki að minnsti vafi léki á hæfi þeirra sem tækju málið fyrir.
Forsætisnefnd ákvað á fundi sínum þann 3. desember síðastliðinn að taka hegðun og orðaval þingmanna á Klaustri bar til skoðunar vegna mögulegra brota á siðareglum. „Einnig ákveður forsætisnefnd að óska þess að ráðgefandi siðanefnd komi saman til að undirbúa umfjöllun um málið og álit sem forsætisnefnd verði látin í té sem allra fyrst í samræmi við 4. og 16. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. ályktanir Alþingis 23/145 og 18/148,“ segir í bókun nefndarinnar.
Hér má sjá fréttatilkynningu sem birtist
um sama leyti og frétt Stundarinnar:
Forsætisnefnd hefur haft til umfjöllunar erindi átta þingmanna er lýtur að ummælum þingmanna á bar 20. nóvember sl. og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu vikur. Hefur málið verið til athugunar sem mögulegt brot á siðareglum fyrir alþingismenn.
Samkvæmt 17. gr. siðareglna fyrir alþingismenn skal forsætisnefnd gæta þess að málsmeðferð siðareglumála sé í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð. Þessi krafa um óhlutdrægni getur vart leitt til annars en þess að gera verði sambærilegar kröfur til hæfis þeirra sem koma að ákvörðun máls í forsætisnefnd skv. 17. gr. siðareglna og gerðar eru til úrskurðarnefnda í stjórnsýslu samkvæmt stjórnsýslulögum. Hæfi nefndarmanna forsætisnefndar ber því að meta á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaga. Við slíkt mat skiptir máli hvernig einstakir nefndarmenn hafa tjáð sig í opinberri umræðu um hátterni þeirra þingmanna sem er til athugunar. Ljóst er af umfjöllun fjölmiðla að fjöldi þingmanna, þ.m.t. forsætisnefndarmenn, hafa tjáð sig um málið með ýmsum hætti og lýst viðhorfum sínum til framgöngu nefndra þingmanna.
Nefndarmenn í forsætisnefnd hafa, að fengnum athugasemdum þeirra þingmanna sem um ræðir, metið hæfi sitt með hliðsjón af þeim ríku kröfum sem gerðar eru til þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum. Nú liggur fyrir sú niðurstaða að forseti og allir varaforsetar, hver um sig, hafa sagt sig frá málinu, m.a. vegna ýmissa ummæla sinna um málið. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um mögulegt hæfi og til að tryggja framgang málsins, áframhaldandi vandaða málsmeðferð og að það geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.
Forseti Alþingis leggur áherslu á að það siðareglumál sem nú er til meðferðar, sem og öll siðareglumál sem kunna að berast Alþingi, fái vandaða og óvilhalla málsmeðferð. Mun forsætisnefnd því koma saman í byrjun janúar til að fjalla um nauðsynlegar lagabreytingar svo að ekki verði töf á meðferð málsins. Markmið þeirra lagabreytinga er að tryggja að málið geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.
Í samræmi við fyrirmæli 4. gr. stjórnsýslulaga mun skrifstofa Alþingis halda því erindi, sem forsætisnefnd hefur móttekið, í réttu horfi þar til viðeigandi breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum Alþingis og meðferð mála samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.
Athugasemdir