Ábendingar um Helga Hjörvar, fyrrverandi þingflokksformann Samfylkingarinnar, sem bárust flokksforystu Samfylkingarinnar árið 2016 og greint var frá á DV.is og Viljanum.is í gær varða meðal annars meinta ósæmilega hegðun Helga gagnvart ungri konu á ráðstefnu Norðurlandaráðs í Helsinki árið 2012. Á þeim tíma var Helgi þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs en konan, sem var á þrítugsaldri, var í hópi ungliða á ráðstefnunni.
Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar var greint frá atvikinu eftir að Helgi Hjörvar bauð sig fram til formennsku í flokknum árið 2016. Eftir að Helgi tapaði formannsslagnum funduðu trúnaðarmenn í flokknum með honum og réðu honum frá því að taka þátt í prófkjörum og bjóða sig fram til þings. Helgi varð ekki við þeirri beiðni og taldi formaður flokksins á þessum tíma, Oddný Harðardóttir, ekki rétt að þrýsta á Helga að stíga til hliðar.
„Þetta eitraði allt“
Ásakanirnar gegn Helga Hjörvari urðu mjög umtalaðar innan Samfylkingarinnar og voru viðbrögð flokksforystunnar umdeild. Óhætt er að fullyrða að málið hafi sett svip sinn á kosningabaráttuna í Reykjavík. „Konum í kringum framboð Samfylkingarinnar var mjög misboðið,“ segir einn af viðmælendum Stundarinnar sem var viðriðinn kosningabaráttuna. „Þetta eitraði allt,“ segir annar. Fleiri óþægileg mál komu upp hjá Samfylkingunni um svipað leyti og beið flokkurinn algert afhroð í þingkosningunum 2016.
Ágúst Ólafur fær „svigrúm“
Stundin spurðist fyrir um mál Helga fyrir tveimur árum og ræddi við fólk í flokknum. „Flokknum bárust ábendingar í þessa veru, og eins og alltaf ber að gera eru þær teknar mjög alvarlega,“ sagði þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar aðspurður hvort stjórn flokkins hefðu borist kvartanir vegna meints kynferðislegs áreitis Helga Hjörvars. Stundin náði ekki tali af konunni á sínum tíma og taldi fyrirliggjandi upplýsingar of óljósar til að hægt væri að fjalla með ábyrgum hætti um málið.
Nú, eftir að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar tók sér leyfi vegna kynferðislegrar áreitni gagnvart blaðakonu, hafa Viljinn.is og DV birt fréttir um ásakanir gegn Helga. Það voru ábendingarnar um framgöngu hans sem urðu til þess að Samfylkingin setti á laggirnar formlegt ferli fyrir mál sem þessi, meðal annars þá trúnaðarnefnd sem nýlega áminnti Ágúst Ólaf vegna ósæmilegrar hegðunar. Fram kom í Fréttablaðinu í dag að forysta Samfylkingarinnar hefði ákveðið að veita Ágústi „svigrúm til að leita sér aðstoðar og ná áttum“.
Þvertók fyrir að hafa gert nokkuð af sér
Helgi Hjörvar var formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á árunum 2009 til 2013 og forseti ráðsins árið 2010. Þegar hann bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar árið 2016 var stjórn flokksins upplýst um ósæmilega hegðun sem Helgi var sagður hafa gerst sekur um nokkrum árum áður, á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki í október 2012.
Helgi var formaður þingflokks Samfylkingarinnar árið 2016 og átti sem slíkur sæti í stjórninni. Í ljósi þess að ekki var kvartað með formlegum hætti undan háttsemi Helga og konan sem átti í hlut vildi ekki koma fram undir nafni taldi flokksforysta Samfylkingarinnar sig lítið geta gert. Málið var borið upp á fundi og Helgi Hjörvar þvertók fyrir að hafa hagað sér með ósæmilegum hætti.
Formenn fulltrúaráðs og kjörstjórnar beittu sér
Eftir að Oddný Harðardóttir vann formannskjörið spurðist fljótt út að Helgi ætlaði að sækjast eftir öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjartan Valgarðsson var á þessum tíma formaður fulltrúaráðs flokksins í borginni. Þegar honum var greint frá atburðunum í Helsinki aflaði hann upplýsinga um málsatvik og boðaði til fundar með Helga Hjörvari og Páli Halldórssyni, formanni kjörstjórnar Samfylkingarinnar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar báðu Kjartan og Páll Helga um að hætta við að bjóða sig fram enda litu þeir svo á að málið væri tifandi tímasprengja fyrir flokkinn. Helgi tók það ekki í mál og vísaði öllum ásökunum um óeðlilega háttsemi í Helsinki á bug.
Þá fundaði Helgi með Oddnýju Harðardóttur og tjáði henni að hann ætlaði að halda framboði sínu til streitu, enda hefði hann fullan rétt til að bjóða sig fram. Það gerði hann og lenti í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður en missti þingsætið sitt í kosningunum þar sem flokkurinn fékk harða útreið.
Ekki náðist í Helga Hjörvar við vinnslu fréttarinnar. Fram kemur í frétt DV að miðillinn hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af honum án árangurs.
Athugasemdir