Frávísunarkröfu tveggja kvenna sem stóðu upp í flugvél Icelandair til að mótmæla ólöglegri brottvikningu hælisleitanda, var hafnað í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fravísunarkrafan byggði meðal annars á því að verjendum væri ógerlegt að taka til varna fyrir skjólstæðinga sína þar sem verknaðarlýsing í ákæru væri svo óskýr að erfitt væri að ráða hvað hvorum skjólstæðingi þeirra væri gefið að sök. Héraðssaksóknari mótmælti því að ákæran væri óskýr og vísaði til þess að konurnar væru ákærðar fyrir samverknað.
Verjendurnir, þau Páll Bergþórsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, byggðu frávísunarkröfu sína einnig á því að konurnar hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar þar sem hún hefði dregist langt úr hófi fram, en tvö og hálft ár liðu frá því atvikið átti sér stað og héraðssaksóknari lagði fram ákæru í málinu. Lögmennirnir furða sig á því að héraðssaksóknari hafi tekið sér svo langan tíma í að leggja fram ákæru enda byggi mál saksóknara mestmegnis á myndbandsupptöku sem legið hafi fyrir frá upphafi máls. Dómari vísaði til þess að þau álitaefni sem væru uppi í málinu vörðuðu frekar sýknuástæður.
Harkaleg viðbrögð við pólitískri aðgerð
Stundin ræddi við lögmennina eftir að frávísunarkröfu þeirra hafði veirð hafnað í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir furða sig á þeirri hörku sem ákæruvaldið beitir í málinu, en konurnar gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm fyrir athæfið. Þau vekja athygli á að ekki hafi þótt tilefni til ákæru í málum þar sem svokallaðir flugdólgar hafa truflað flug í miðjum háloftum sem hafi haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en í þessu tilfelli, og velta því upp hvort viðbrögð ákæruvaldsins skýrist mögulega af því að hér hafi verið um pólitíska aðgerð að ræða.
Páll bendir til dæmis á að málum þar sem einhver óhlýðnist fyrirmælum flugverja sé yfirleitt lokið með sektargerð upp á tíu til fimmtán þúsund krónur. „Það er eflaust mikið af málum sem er lokið með þeim hætti en þarna virðast þeir fara svolítið í að líta á þetta sem einhverskonar meiriháttar aðgerðir, þar sem eru mögulega einhverjir svona aðgerðarsinnar, og fara þá kannski í svona gígantíska heimfærslu.“ Auður segir af nógu að taka fyrir aðalmeðferð málsins sem er á dagskrá þann 8. febrúar næstkomandi.
Allt að sex ára fangelsi
Í ákæru héraðssaksóknara er þeim Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur gefið að sök að hafa brotið gegn 106. og 168. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa annars vegar tálmað lögreglumönnum við skyldustörf og hins vegar raskað öryggi flugvélarinnar. Þá eru þær sagðar hafa brotið gegn 141. gr. loftferðalaga með því að óhlýðnast fyrirmælum áhafnar. Hámarksrefsing við broti gegn 106. gr. almennra hegningarlaga er tveggja ára fangelsi en refsing við broti gegn 168. gr. sömu laga getur verið allt að sex ára fangelsi. Þá liggur allt að fimm ára fangelsisdómur við broti gegn 141. gr. loftferðalaga. Þær geta því átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm verði þær fundnar sekar.
Frávísunarkrafa lögmannanna byggði á því að ákæruskjal héraðssaksóknara fullnægði ekki kröfum 152. gr. laga um meðferð sakamála, sem kveður á um skýrileika í ákæru. „Af verknaðarlýsingu eiga ákærðu að geta ráðið hvaða háttsemi þeim er gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði þær eiga að hafa brotið gegn án þess að tvímælis orki í þeim efnum. Í ákæruskjali er engin sundurgreining á háttsemi ákærðu. Ákærðu er því illmögulegt að taka afstöðu til sakargifta og er ógerlegt fyrir verjendur að taka til varna fyrir skjólstæðinga sína.“ Lögmennirnir sögðu ennfremur að verknaðarlýsing í ákæru ætti ekkert skylt við það sem raunverulega gerðist og að hún ætti sér ekki stoð í gögnum málsins. Hefur þar verið vísað til þess að ekki sé samræmi á milli þess sem ákærðu var gefið að sök við lögreglurannsókn og síðar í ákæruskjali.
Vildu vernda vin sinn
Það var að morgni dags þann 26. maí 2016 sem þær Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja stóðu upp í flugvél Icelandair til að mótmæla brottvísun hælisleitandans Eze Okafor sem hafði verið handtekinn og færður með lögregluvaldi í flugvélina þar sem vísa átti honum til Svíþjóðar.
Þá þegar lá fyrir að sænsk yfirvöld myndu ekki taka mál hans fyrir heldur senda hann aftur til heimalandsins Nígeríu en Eze hefur greint frá því að hann hafi flúið þaðan í kjölfar árása Boko Haram liða, sem veittu honum stungusár og myrtu bróður hans. Ragnheiður og Jórunn stóðu upp áður en vélin tók á loft og báðu aðra flugfarþega um að sýna hælisleitandanum samstöðu en flugstjóri flugvélarinnar neitaði að taka á loft fyrr en allir farþegar höfðu sest niður.
Stundin ræddi við þær Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju stuttu eftir að ákæran hafði verið lögð fram í síðasta mánuði, en þá sögðust þær hafa gripið til þessa örþrifaráðs til þess að vernda vin sinn sem þær óttuðust mjög um. Þá þegar hefði legið fyrir að verið væri að vísa Eze úr landi á grundvelli dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála hefði verið búin að úrskurða um að að frestur til þess gera slíkt væri útrunninn. Þær hafi því einfaldlega verið að bregðast við þessu lögbroti Útlendingastofnunar:
Athugasemdir