Ákvörðun Útlendingastofnunar frá því í apríl síðastliðnum um að synja Eze Okafor, nígerískum hælisleitanda, um dvalarleyfi af mannúðarástæðum hefur verið felld úr gildi. Stofnuninni ber að taka umsókn Eze fyrir að nýju þar sem fyrri ákvörðun byggði á gömlum útlendingalögum sem fallin voru úr gildi. Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála sem dagsettur er 22. júní síðastliðinn. Stuðningsmenn Eze vonast til þess að þetta muni leiða til þess að hann fái dvalarleyfi hér á landi.
Stundin greindi frá því í maí að Útlendingastofnun hefði synjað umsókn Eze um dvalarleyfi af mannúðarástæðum en stofnunin taldi að honum væri ekki hætta búin í heimalandinu þrátt fyrir að hann hefði flúið þaðan eftir að liðsmenn Boko Haram hryðjuverkasamtakanna höfðu veitt honum alvarlegt stungusár og drepið bróður hans vegna kristinnar trúar þeirra í borginni Maiduguri í norð-austurhluta Nígeríu. Ákvörðunin var síðar kærð til kærunefndar útlendingamála sem hefur nú rekið Útlendingastofnun til baka með hana.
Athugasemdir