Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er gestur á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem nú stendur yfir.
Formaður nefndarinnar er Bergþór Ólason sem fór niðrandi orðum um Írisi á Klaustri Bar 20. nóvember síðastliðinn eins og Stundin og DV hafa greint frá.
Bergþór mætti á fund nefndarinnar í morgun en var hins vegar fjarverandi í gær án þess að skýringar væru gefnar.
Íris er mætt á fund nefndarinnar í krafti embættis síns en fjallað er um samgönguáætlun á fundi nefndarinnar í dag. Heyra má Bergþór fara niðrandi orðum um Írisi á hljóðupptöku af samskiptunum sem fóru fram á Klaustur Bar.
„Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur,“ sagði hann.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, sem einnig sat að sumbli á Klaustri Bar er einnig nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Hann er einnig mættur til fundarins. Samkvæmt heimildum Stundarinnar gengu þeir Bergþór og Karl Gauti báðir úr fundarsal nú fyrir skemmstu, skömmu áður en Íris átti að koma fyrir nefndina.
Gunnar Bragi bað Áslaugu afsökunar til öryggis
Stundin greindi fyrst frá því á miðvikudagskvöld að í hljópupptöku af Klausturssamkundunni heyrðust þingmennirnir ræða um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika. Þar segði Bergþór Ólason að honum þætti ung stjórnmálakona ekki jafn „hot“ og áður.
Vísir.is fullyrti að samkvæmt heimildum fréttavefsins væri þarna verið að tala um Áslaugu Örnu. Það er ekki rétt. Í þeim hljóðupptökum sem Stundin hefur undir höndum er hvergi minnst á Áslaugu. Gunnar Bragi Sveinsson greindi hins vegar frá því í Kastljósi í gær að hann hefði beðið Áslaugu afsökunar ef vera kynni að hann hefði sagt eitthvað ósæmilegt um hana.
Athugasemdir