Landsnefnd UN Women á Íslandi fordæmir þá kvenfyrirlitningu og hatursorðræðu sem Gunnar Bragi Sveinsson og fimm aðrir alþingismenn viðhöfðu á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem landsnefndin sendi fjölmiðlum.
Í tilkynningunni segir að þau ummæli sem vitnað hefur verið til séu algjörlega óásættanleg og staðfesti hve mikið verk er enn óunnið í baráttunni fyrir kynjajafnrétti á Íslandi. Þar er haft eftir Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, að stjórn og starfsfólk UN Women á Íslandi sé harmi slegið og sérstaklega vonsvikið yfir því að fyrrverandi utanríkisráðherra hafi með þessum hætti skaðað orðspor Barbershop-verkfærakistunnar og HeForShe hreyfingu UN Women sem gangi ekki síst út á að uppræta niðrandi tal um konur. Sjálf sé hún nú við störf í Malaví við innleiðingu Barbershop-verkfærakistunnar í fyrsta sinn í Afríku, við frábærar undirtektir í helsta samstarfslandi íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu.
Í gegnum tíðina hefur Gunnari Braga talsvert verið hampað fyrir stuðning við jafnréttismál. Hann gegndi stöðu utanríkisráðherra á árunum 2013-2016 og var í því nafni í forsvari fyrir HeForShe-herferð UN Women, sem ætlað er að hvetja karlmenn til þátttöku í jafnréttisbaráttunni. Hann skrifaði meðal annars grein sem birtist í Guardian sem vakti talsverða athygli, ekki síst í ljósi þess að leikkonan Emma Watson vitnaði í greinina á Twitter-síðu sinni. Gunnar Bragi talaði fyrir jafnrétti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á ýmsum alþjóðlegum ráðstefnum.
„Við viljum brýna karla til að stefna að raunverulegu jafnrétti, að breyta staðalímyndum og gera sér grein fyrir því að jafnréttismál eru fyrst og fremst mikilvægt mannréttindamál,“ var meðal annars haft eftir Gunnari Braga í grein sem birt var á heimasíðu Framsóknarflokksins í tilefni af svokallaðri Rakararáðstefnu sem Ísland og Súrínam stóðu sameiginlega fyrir í New York í janúar 2015. Sama ár hlaut hann jafnréttisviðurkenningu Framsóknar, sem veitt var á flokksþingi í apríl. Við það tilefni var honum gefinn verðlaunagripurinn „Hnarreist stöndum við saman“, skúlptúr sem átti að tákna að „við stöndum öll á sama grundvelli og horfumst í augu, burt séð frá til dæmis kyni, kynþætti, aldri eða samfélagsstöðu“.
Athugasemdir