Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segist ætla að njóta dagsins í árlegum fagnaði fyrrverandi þingmanna í Alþingishúsinu. Hún þurfi að melta ummæli samflokksmanna sinna og hyggst taka afstöðu til þeirra á morgun. Una María Óskarsdóttir, formaður kjördæmisfélags Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, segir að um sé að ræða „mjög óheppilegar aðstæður þarna á einhverjum bar í Reykjavík.“
Vigdís segist ekki hafa haft tóm til að ná áttum í umræðunni. „Alveg hreint út sagt þá er ég ekki búin að ná almennilega utan um þetta. Ég er að hugsa um að gefa mér daginn í dag til að hugsa málið og sjá hvernig mál þróast. Það eru alltaf að koma meiri og meiri upplýsingar fram. Daginn í dag ætla ég að nota til að njóta þess að mæta í Alþingishúsið og taka þátt í árlegum 1. desember fagnaði fyrrverandi þingmanna og núverandi þingmanna. Ég þarf bara aðeins að melta þetta.“
Spurð hvort hún telji ástæðu til að málið verði tekið til umræðu á vetttvangi flokksins segir Vigdís að sú krafa hljóti að koma frá grasrót flokksins, henni þyki það í það minnsta líklegt. „Við verðum þá að verða við því og ræða þessi mál.“
Una María Óskarsdóttir, formaður kjördæmaráðs Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, sagði þegar Stundin náði sambandi við hana að hún væri ekki búin að gefa sér tíma til að fara yfir umræðuna. Una María er fyrrverandi formaður Landssambands Framsóknarkvenna og spurð hvort hún henni þætti orðnotkun samflokksmanna sinna um konur ekki óviðeigandi játaði Una því þó. „Fólk á auðvitað ekki að tala svona en ég þarf bara að lesa þetta betur til að átta mig á samhenginu. Kom ekki fram að þetta hefði heyrst illa?“
Blaðamaður benti þá á að ekki þyrfti að velkjast í vafa um að Bergþór Ólason hefði farið mjög ljótum orðum um Ingu Sæland. „Já, hann er nú búinn að biðjast afsökunar á því. Þetta eru mjög óheppilegar aðstæður þarna á einhverjum bar í Reykjavík. Auðvitað sjá allir að þetta er mjög skrýtin umræða og þó maður svo sem viti að fólk geti látið ýmislegt flakka, sem að er auðvitað sumt kannski sagt í gríni, að þegar það er komið í stærra samhengi þá kemur það alls ekki vel út og menn eiga ekki að tala þannig.“
Athugasemdir