Ég er að verða gamall. Það ætti kannski ekkert að koma mér, eða öðrum, á óvart, ég varð jú fertugur í sumar er leið. En þau tímamót urðu ekki til þess að aldurinn helltist yfir mig, eins og ég hef heyrt suma sem hafa orðið fertugir lýsa. Nei, það er öðru nær. Aldurinn hefur laumast aftan að mér, hægt og hljótt, og höggvið í lífshætti mína þar sem síst skyldi.
Ég hef fundið fyrir þessum árásum tímans á undanförnum árum, hvernig aldurinn læðist að. Ég hef þó lengst af kosið að hunsa það. En svo hefur aldurinn hellst þannig yfir mig að ég hef ekki ráðið við neitt.
Fyrst varð ég var við þetta með matinn. Hafandi alist upp í sveit og útivinnu var ég vanur því að hesthúsa ógnarstóra skammta af mat í öllum matmálstímum. Ég fékk mér þrisvar á diskinn að minnsta kosti og kúffyllti hann. En á síðustu árum fór ég að verða var við að ég hafði ekki lengur svona mikla lyst. Það gerðist yfirleitt samt eftir að ég var búinn að hesthúsa matinn, vegna annarrar venju frá yngri árum, að borða á æðisgengnum hraða. En af því að ég, skrifstofublókin, var orðinn svo gamall þá hafði ég ekkert við allan þennan mat að gera og þess vegna fóru kvöldin í uppþembu og magaverk.
Það næsta sem aldurinn gerði mér var að koma á mig ofnæmi fyrir mjólk! Hversu ósvífið. Sonur kúabændanna var allt í einu kominn með áunnið mjólkuróþol. Ég sem aldrei hafði verið með óþol eða ofnæmi fyrir neinu.
Og svona heldur þetta áfram og áfram. Þegar ég var yngri var nú ekki mikið mál að vaka heilu sólarhringana, ef þörf krafði. Núna er gamli maðurinn ónýtur ef ég næ ekki að minnsta kosti sjö og hálfum tíma, ótrufluðum. Ég þoli minna vín, hnéð á mér er í einhverri klessu og svo er eitthvert bank í ofnunum.
Allt þetta er pínu ógnvekjandi og skapar mér líka óþægindi, vesen og bras. En það er vel hægt að lifa með þessu öllu. Hitt get ég ekki þolað ef aldurinn verður til þess að ég verði að íhaldssömum og neikvæðum karlskarfi. Ég treysti á að mín síunga eiginkona haldi mér á mottunni hvað það varðar. Þið veitið henni kannski andlegan stuðning.
Athugasemdir