„Málið verður þingfest á morgun í félagsdómi,“ segir Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, sjómanns og viðskiptalögfræðings, í samtali við Stundina. Kolbrún hefur fyrir hönd Heiðveigar lagt fram stefnu á hendur Sjómannafélagi Íslands fyrir að hafa með ólögmætum hætti vikið henni úr félaginu. Stefnan byggir á því að stjórnin hafi brotið gegn 2. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem kveður á um að stéttarfélög skuli vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu. Kolbrún hefur farið fram á flýtimeðferð í málinu enda sé framboðsfrestur fyrir þá sem hyggjast bjóða sig fram til formennsku í félaginu við það að renna út.
Kosningum verði frestað
„Við krefjumst þess að það verði viðurkennt að brottrekstur Heiðveigar hafi verið brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur,“ segir Kolbrún sem fer einnig fram á að það verði viðurkennt að breytingar á 16. grein laga Sjómannafélagsins um kjörgengi hafi verið brot á sömu lagagrein. „Önnur greinin felur í sér rétt manna til þess að vera í félagi og ég tel að greinin verndi líka rétt manna til að vera ekki reknir úr félagi án þess að fyrir því liggi góð rök og málefnalegar ástæður,“ segir Kolbrún í samtali við Stundina.
„Við krefjumst þess að það verði viðurkennt að brottrekstur Heiðveigar hafi verið brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur“
Hún fer fram á að það verði viðurkennt að Heiðveig María sé kjörgeng í félaginu auk þess sem farið er fram á miskabætur og að Sjómannafélagi Íslands verði gert að greiða sekt sem rennur í ríkissjóð. „Ég mun líka fara fram á það við lögmann þeirra að þeir fresti öllu sem heitir að leggja fram famboðslista og kosningar til stjórnar og annað slíkt eða þangað til að niðurstaða fæst í þetta mál. Mér finnst einfaldlega eðlilegt að það sé gert bara á meðan á þessum ágreiningi stendur,“ segir Kolbrún.
Sjómannafélag Íslands hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, sérstaklega eftir að Heiðveig María var gerð brottræk þaðan á þeirri forsendu að hún hefði skaðað hagsmuni félagsins með gagnrýni sinni. Heiðveig hefur gagnrýnt stjórn félagsins harðlega að undanförnu og meðal annars sakað hana um að hafa breytt lögum þess án heimildar. Ein þessara lagabreytinga fól í sér breytingu á kjörgengi félagsmanna sem þurfa nú að hafa verið skráðir í félagið í þrjú ár til þess að geta boðið sig fram til trúnaðarstarfa. Heiðveig hefur meðal annars bent á að þessi breyting hafi verið gerð til þess að koma í veg fyrir framboð hennar til formanns. Hún fer nú fram á ógildingu þessarar brottvikningar.
Athugasemdir