Átta félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands lýsa yfir vantrausti á stjórn félagsins sem þeir segja að fari nú með einræði í félaginu. Jónas Garðarsson, sitjandi formaður félagsins, hafnaði í gær kröfu áttmenninganna um félagsfund vegna þeirrar alvarlega stöðu sem komin væri upp í félaginu. Fullyrti Jónas að einungis 52 af þeim 163 sem skrifað hefðu undir áskorun til stjórnarinnar um að boða til slíks fundar væru í raun og sanni félagar í Sjómannafélagi Íslands. Áttmenningarnir óska nú eftir því að fá að sjá lista yfir það hverjir séu félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands í ljósi þess að óháður aðili var ekki fenginn til þess að bera félagalistann saman við undirskriftarlistann.
„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil ólga er innan félagsins svo líkja mætti því við skip sem hefur fengið á sig brotsjó,“ segir í tilkynningu áttmenninganna en þeir líkja félagi sínu við „sökkvandi skip eftir að rangar ákvarðanir hafa verið teknar við björgun, af þeim sem stjórna.“ Þá gagnrýna þeir að krafa fjögurra félaga um að vísa Heiðveigu Maríu Einarsdóttur úr félaginu hafi fengið áheyrn og hljómgrunn á meðan krafa þeirra átta og fleiri félaga hafi verið algjörlega hunsuð. „Að 4 félagsmenn geti farið fram á að einum félaga sé vikið úr félaginu en 8 félagsmenn, sem eru hér undirritaðir, geti ekki óskað eftir almennum félagsfundi lætur okkur líða eins og við séum ekki með rödd í okkar eigin félagi.“
„Verður okkur sem nú höfum gagnrýnt forystuna, þó ekki með þessum orðum, vikið úr félaginu?“
Félagsmennirnir vísa í tilkynningu formanns Sjómannafélags Íslands frá því í gær þar sem fram kom að Heiðveig María hefði gagnrýnt forystu félagsins harkalega í fjölmiðlum og borið ærumeiðandi ásakanir upp á stjórnina. Þá spyrja þeir hvort þeir geti sjálfir búist við því að verða gerðir brottrækir úr félaginu fyrir gagnrýni sína. „Verður okkur sem nú höfum gagnrýnt forystuna, þó ekki með þessum orðum, vikið úr félaginu?“ Þá ítreka þeir að Heiðveig María standi ekki á bak við undirskriftarlistann, „en eftir viðbrögð formanns og stjórnar félagsins seinustu vikna sjáum við okkur ekki fært að styðja þá stjórn sem nú fer með einræði í félaginu.“
Fjölmargir hafa gagnrýnt forystu Sjómannafélags Íslands fyrir framgöngu sína gagnvart Heiðvigu Maríu að undanförnu. Þannig fordæmdi Drífa Snædal, forseti ASÍ, það sem hún kallaði aðför að Heiðveigu. Þá hafa forystumenn helstu stéttarfélaga landsins einnig gagnrýnt formanninn og forystuna harðlega.
Athugasemdir