Ef Icelandair kaupir WOW air, eins og tilkynnt hefur verið, munu hátt í 80 prósent flugferða til og frá landsins verða á hendi sama aðila.
Tilkynnt var um fyrirhuguð kaup Icelandair rétt í þessu. Skúli Mogensen, eigandi WOW air, fær 5,4% hlut í Icelandair í sölunni. Samkvæmt markaðsvirði Icelandair jafngildir þetta um 2,2 milljörðum króna, en WOW air tapaði 2,3 milljörðum króna í fyrra.
Í júní 2018 hafði WOW air 32 prósent markaðshlutdeild í flugferðum til og frá landinu, en Icelandair 44,7 prósent. Umsvifamest erlendra flugfélaga var Wizz air með 3,8 prósent flugferða og Easyjet með 2,3 prósent. Markaðshlutdeild íslensku þessara tveggja íslensku flugfélaga hefur verið stöðug í kringum tæp 80 prósent, en WOW air hefur hækkað flugið undanfarin ár og tekið af hlutdeild Icelandair. Þannig hefur hlutdeild Icelandair fallið úr tæpum 70 prósentum árið 2013 í tæp 45 prósent.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá félögunum verða þau áfram rekin undir sömu vörumerkjum. Þá kemur fram í tilkynningunni að markaðshlutdeild þeirra yfir Atlantshafið sé 3,8%. Það segir hins vegar ekki alla söguna um yfirgnæfandi markaðsstöðu félaganna í samgöngum til og frá Íslandi.
Vefsíðan Túristi.is greindi frá því í fyrra að í engu öðru Evrópulandi væri hlutdeild innlendra flugfélaga eins há og hér á landi, en nú verður sú hlutdeild á vegum sama aðila.
„Það eru mikil tækifæri til hagræðingar en félögin verða áfram rekin á eigin forsendum undir eigin vörumerkjum og flugrekstrarleyfum. Íslensk ferðaþjónusta er grunnstoð í íslensku hagkerfi og það er mikilvægt að flugsamgöngur til og frá landinu séu í traustum skorðum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningunni.
„Nú tekur nýr kafli við“
WOW air hafði, samkvæmt yfirlýsingum félagasins um miðjan september, náð að fjármagna sig með 6,5 milljarða króna skuldabréfaútboði með 9 prósent vaxtaálagi.
Skúli Mogensen, eigandi WOW air, kveðst í yfirlýsingu í dag vera stoltur. „Ég er mjög stoltur af þeim árangri og þeirri uppbyggingu sem við hjá WOW air höfum náð á undanförnum árum og er jafnframt þakklátur fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið frá fyrsta degi. Við höfum byggt upp öflugt teymi sem hefur náð eftirtektaverðum árangri og verið brautryðjandi í lággjaldaflugi yfir Norður-Atlantshafið. Nú tekur nýr kafli við þar sem WOW air fær tækifæri til að vaxa og dafna með öflugan bakhjarl eins og Icelandair Group sem mun styrkja stoðir félagsins enn frekar í alþjóðlegri samkeppni.“
Beðið er hluthafafundar Icelandair, áreiðanleikakönnunar og svo samþykkis Samkeppniseftirlitsins.
Athugasemdir