Helstu styrktaraðilar Framsóknarflokkins árið 2017 voru fyrirtæki í sjávarútvegi, en lögaðilar og einstaklingar styrktu flokkinn um tæpar 15 milljónir. Flokkurinn tapaði þó 39 milljónum króna á rekstri sínum í fyrra og eigið fé var neikvætt um 58,5 milljónir.
Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins sem Ríkisendurskoðun birti í dag. Tekjur flokksins voru tæpar 77 milljónir á árinu, en rekstrargjöld rúmar 107 milljónir. Þá voru fjármagnsgjöld flokksins 8,5 milljónir. Skuldir Framsóknarflokksins námu 242 milljónum króna, vel umfram eignir.
Félag Matthíasar Imsland, fyrrverandi aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Eyglóar Harðardóttur ráðherra, styrkti flokkinn um hámarksupphæð, 400 þúsund krónur. Það gerðu einnig mörg félög úr sjávarútvegi. Gjögur, HB Grandi, Ísfélag Vestmannaeyja, Samskip, Síldarvinnslan, Vísir og Þorbjörn hf. styrktu flokkinn hvert um þá upphæð.
Þá styrktu Hvalur hf., félag Kristjáns Loftssonar í hvalveiðum, Síminn og Mata hf., fyrirtæki í sölu og dreifingu ávaxta og grænmetis um 400 þúsund krónur. Kristján Gunnar Ríkharðsson, fjárfestir í Skuggahverfinu, styrkti flokkinn um 390.000 kr. í gegnum félag sitt Skuggi 4 ehf. Þá styrkti fjárfestirinn Heiðar Guðjónsson flokkinn um hámarksupphæð í gegnum félag sitt Ursus ehf. Heiðar er stjórnarformaður Sýnar hf., sem á meðal annars Vodafone, Stöð 2, Vísi og fleiri fjölmiðla.
Framlög ríkis og sveitarfélaga til flokksins námu um 50 milljónum króna á síðasta ári. Framsóknarflokkurinn fékk um rúmar 8 milljónir króna í leigutekjur og 2,5 milljónir fyrir „auglýsingar og selda þjónustu“. Þá styrktu einstaklingar flokkinn um rúmar 6 milljónir, mest Eygló Harðardóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, um 270 þúsund krónur.
Athugasemdir