Yfirlýsingar Gunnars Smára Egilssonar og aðdróttanir í garð fjármálastjóra Eflingar, Kristjönu Valgeirsdóttur, eru alvarleg aðför að mannorði hennar og í þeim felst meira en nægt tilefni til meiðyrðamáls og kröfu miskabóta.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður Kristjönu, Lára V. Júlíusdóttir, hefur sent fjölmiðlum fyrir hennar hönd. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort höfðað verði mál á hendur Gunnari Smára.
Um síðustu helgi fjallaði Morgunblaðið um ólgu á skrifstofu Eflingar og fleiri fjölmiðlar fylgdu í kjölfarið. Gunnar Smári tjáði sig ítrekað á Facebook um fréttina og málefni tengd Eflingu, meðal annars um Kristjönu og hennar störf.
Í yfirlýsingunni sem Lára sendi út fyrir hönd Kristjönu er sagt að óhjákvæmilegt að bregðast við „þeim rangfærslum og óhróðri sem hún nú verður fyrir af hálfu Gunnars Smára.“ Þar segir að Gunnar Smári hafi sagt Kristjönu sverta nafn Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu hans, í von um að koma höggi á yfirmenn sína. Við það kannast Kristjana ekki enda komi nafn Öldu Lóu hvergi fram á reikningum eða gögnum og Kristjana hafi aldrei hitt hana.
„Gunnar segir ennfremur að umbjóðandi minn sé „augljóslega ómerkileg manneskja og illgörn.” Hvernig Gunnar kemst að þeirri niðurstöðu er illskiljanlegt þar sem umbjóðandi minn kannast ekki við Gunnar Smára Egilsson nema úr fjölmiðlum og minnist þess ekki að hafa hitt þann mann né átt nein samskipti við hann.“
Þá segir í yfirlýsingunni að öllum ásökunum, ávirðingum og alhæfingum svo sem þeirri að fjármálastjóri Eflingar „beri ábyrgð á vondri stöðu verkalýðshreyfingarinnar og hafi valdið verkafólki fjárhagslegu tjóni“ sé vísað á bug enda engin rök eða sannananir fyrir því að nokkur fótur sé fyrir þeim.
„Myndbirting af umbjóðanda mínum sem fylgir þessum ósönnu ásökunum er ámælisverð og hluti af árás á persónu umbjóðanda míns sem ekki er hægt að sitja undir.
Í samtali við Stundina sagði Lára að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort höfðað yrði mál á hendur Gunnari Smára vegna þessara ummæla. Aðspurð um þau ummæli sem Gunnar Smári lét falla í athugasemd á Facebook, að líklega hefði Kristjana stungið undan fjármunum í starfi sínu, sagði Lára að þeim ávirðingum væri fortakslaust hafnað.
Athugasemdir