Reynist frummatsskýrsla Samkeppniseftirlitsins á rökum reist hefur Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður og aðaleigandi Brims og HB Granda, gerst sekur um alvarleg brot á samkeppnislögum. Felast möguleg brot í því að Guðmundur hafi tekið við sem forstjóri HB Granda á sama tíma og hann sé aðaleigandi Brims og sömuleiðir að Guðmundur hafi setið í stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum á sama tíma.
Fréttablaðið greinir frá þessu. Í bréfi frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að varhugavert sé í samkeppnislegu tilliti að aðili sem eigi allt hlutafé í félagi, Brimi í þessu tilviki, sé jafnframt forstjóri félags á sama markaði og stjórnarmaður í þriðja félaginu sem einnig sé umsvifamikið í útgerð. Guðmundur tók við sem forstjóri HB Granda í vor eftir að hann eignaðist 34 prósenta hlut í fyrirtækinu með kaupum Brims í því 4. maí síðastliðinn.
Auk þessara mögulegu brota telur Samkeppniseftirlitið einnig að þegar Brim keypti í HB Granda hafi tilkynningarskyldur samruni átt sér stað. Hann hafi ekki verið tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins. Hið sama kunni að hafa átt sér stað þegar Brim eignaðist útgerðarfyrirtækið Ögurvík sumarið 2016.
Athugasemdir