Stjórnvöld munu fá sérstaka heimild til að neita almenningi um upplýsingar er varða ráðgjöf sem ráðherrar og aðrir embættismenn fá um siðareglur og framfylgd þeirra. Þetta er á meðal þess sem lagt verður til í fyrirhuguðu frumvarpi forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum. Fyrir vikið yrði leynd yfir upplýsingum á borð við þær sem hér er að finna.
„Þessi áform eiga rætur að rekja til ábendinga GRECO í fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi, sem beindist m.a. að vörnum gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds (sjá efnisgrein nr. 47 í skýrslunni),“ segir Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarmála hjá forsætisráðuneytinu, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. „Ráðuneytið hefur túlkað gildandi upplýsingalög þannig að veita verði almenningi aðgang að upplýsingum um ráðgjöf um siðareglur og veitti fjölmiðlum til dæmis slíkan aðgang í kjölfar fyrirspurnar á Alþingi. Mat GRECO og niðurstaða starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu byggja hins vegar á sjónarmiðum um að þetta fyrirkomulag geti komið í veg fyrir að embættismenn leiti sér slíkrar ráðgjafar þegar á þarf að halda.“
Stefnt er að því að frumvarp til breytinga á upplýsingalögum verði lagt fyrir Alþingi í febrúar næstkomandi. Efni þess er lýst með eftirfarandi hætti í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt hefur verið á stjórnarráðsvefnum: Einföldun og samræming (orðalag lagfært og tilvísanir til laganna í öðrum lögum uppfærðar, lög um upplýsingarétt um umhverfismál felld niður og ákvæðum þeirra bætt við upplýsingalög). Gildissvið útvíkkað þannig að nái til stjórnsýslu Alþingis og dómstóla í tengslum við fyrirhugaða fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um aðgang að opinberum upplýsingum. Bætt við heimild til að takmarka upplýsingarétt almennings hvað varðar upplýsingar um ráðgjöf um siðareglur og fleira.
Lýsingin samrýmist vel tillögum sem fram komu í nýlegri skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar er lagt til að gildissvið upplýsingaréttar nái til handhafa löggjafarvalds og dómsvalds, lagaákvæði um upplýsingarétt um umhverfismál verði færð inn í hin almennu upplýsingalög og að mælt verði fyrir um „heimild til að virða trúnað um ráðleggingar þar til bærra aðila til opinberra starfsmanna um siðareglur og skyld efni“.
Starfshópurinn lagði einnig til að lögfestur yrði hámarkstími afgreiðslu á upplýsingabeiðnum með sams konar hætti og gert hefur verið í lögum um endurnot opinberra upplýsinga. Ekki er minnst á slíkar lagabreytingar í þingmálaskránni. Páll Þórhallsson bendir á að í þingmálaskránni birtist ekki tæmandi upptalning á fyrirhuguðum breytingum. „Hámarkstími afgreiðslu beiðni um upplýsingar er eitt af þeim atriðum sem mun koma til skoðunar,“ segir hann.
Athugasemdir