Hækkun skattleysismarka atvinnutekna upp í 300 þúsund krónur á mánuði hefði skert tekjur hins opinbera um 149,3 milljarða króna miðað við skattstofn síðasta árs.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins.
Flokkur fólksins talaði fyrir því í aðdraganda síðustu þingkosninga að persónuafsláttur yrði hækkaður svo tryggja mætti 300 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu á mánuði. Um var að ræða fyrsta málið af fimm „áhersluatriðum Flokks fólksins fyrir alþingiskosningar 2017“ sem kynnt voru á vef flokksins. Þá birti Guðmundur Ingi pistil með yfirskriftinni „300 þúsund krónur í laun eftir skatt strax“.
Til þess að atvinnutekjur ársins 2017 upp að 300 þúsund krónum á mánuði hefðu verið lausar við tekjuskatt og útsvar, að teknu tilliti til lögboðins 4% iðgjalds launþega í lífeyrissjóð, hefði persónuafsláttur þurft að vera 106.387 krónur á mánuði.
„Það hefði að öðru óbreyttu skert tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga um 149,3 milljarða kr. Þar af hefðu 100,4 milljarðar kr. verið vegna lækkunar tekjuskatts og 48,9 milljarðar kr. vegna greiðslu útsvars frá ríki til sveitarfélaga,“ segir í svari ráðuneytisins.
Til samanburðar má nefna að útgjöld vegna allrar sjúkrahúsþjónustu á landinu eru rúmlega 90 milljarðar samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs og fjárstuðningur við öryrkja og aldraðra er samtals um 140 milljarðar.
Myndi veikja skattstofninn umtalsvert
„Álagning tekjuskatts einstaklinga á tekjur ársins 2017 nam samtals 168,6 milljörðum kr. Tekjuskattur einstaklinga hefði því rýrnað um 89%. Þeim sem ekki greiða neinn tekjuskatt eða útsvar mundi fjölga úr rúmlega 42 þúsund í 119 þúsund. Þeim sem ekki greiða ríkissjóði neinn tekjuskatt mundi fjölga úr 78 þúsund í 171 þúsund. Þeim sem greiða tekjuskatt til ríkisins mundi að sama skapi fækka úr 220 þúsund í 126 þúsund eða um 42%.“
Komið hafa fram hugmyndir um að tekjutengja persónuafslátt og láta hann fjara út eftir að ákveðnu hámarki tekna er náð. Guðmundur Ingi spyr við hvaða tekjumörk persónuafslátturinn þyrfti að fjara út „til að fyrrgreind breyting [þ.e. hækkun persónuafsláttarins] kosti ríkið ekkert“.
Í svari ráðuneytisins er sett fram sviðsmynd þar sem skerðing persónuafsláttarins hefst strax við skattleysismörkin og miðast við 40,75 prósenta skerðingu upp að 561.072 krónum þegar persónuafslátturinn myndi hafa fjarað alveg út. „Á bilinu 300.000–561.072 kr. væri 77,69% jaðarskattur, en við álagningu 2018 voru 107.237 framteljendur með tekjuskattsstofn á því bili. Það þýðir að 77,69% af hverri krónu í tekjuskattsstofn sem unnið er fyrir á því tekjubili renna í ríkissjóð, en einungis 22,31% til launþegans,“ segir í svari ráðuneytisins. „Þó að jafnstaða næðist við slíkt fyrirkomulag ykjust álögur á launþega um 33,7 milljarða kr. sem færast til sveitarfélaganna í formi persónuafsláttar til útsvars frá ríkinu. Álögur á launþega með meira en 300.000 kr. í tekjuskattsskyldar tekjur á mánuði ykjust þannig um 183 milljarða kr. á ársgrundvelli.“
Hár jaðarskattur drægi úr vinnuhvata
Bent er á að þótt fyrirkomulagið komi út á sléttu samkvæmt kyrrstöðulíkani fjármálaráðuneytisins hefði svona hár jaðarskattur gríðarlega neikvæð áhrif á vinnuframlag. Útreikningarnir taki ekki mið af því.
„Það þýddi að tekjur ríkissjóðs í raun væru umtalsvert lægri en sem hér segir. Þar sem þetta dæmi miðar við lægstu mögulegu mánaðartekjurnar til að hefja skerðingu persónuafsláttar er ljóst að allar aðrar sviðsmyndir leiddu af sér enn hærri jaðarskatt fyrir þá aðila sem hafa mánaðartekjur á bilinu frá skattleysismörkum og upp að þeim tekjum þar sem persónuafsláttur nær núll krónum. Slíkt hefði í för með sér enn neikvæðari áhrif á vinnuframlag. Engan veginn er hægt að ganga út frá því að auknar ráðstöfunartekjur hinna tekjulægri en minni tekjur hinna tekjuhærri mundu leiða af sér jafnar tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þannig er hægt að segja með þónokkurri vissu að ekki sé til nokkur sú nálgun sem skilaði ríkissjóði jafnstöðu miðað við gefnar forsendur.“
Athugasemdir