Frá og með 1. september munu Sjúkratryggingar Íslands greiða að fullu fyrir tannlæknaþjónustu öryrkja og aldraðra sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum. Munu greiðslur til sjúkratryggða nema 100 prósentum af gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands hjá þessum hópi en 50 prósentum hjá öðrum öryrkjum og öldruðum.
Þetta felst í nýlegri reglugerð sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setti eftir að undirritaður var þriggja ára rammasamningur um tannlækningar fyrir aldraða og öryrkja. Ekki hefur verið í gildi slíkur samningur síðan 2004 þegar síðasti samningur, frá 1999, rann út. Frá þeim tíma hefur verið í gildi sérstök endurgreiðslugjaldskrá sem greiðsluþátttakan hefur byggt á. Í ljósi þess að skráin fylgdi ekki verðlagsþróun rýrnaði greiðsluþátttakan með árunum og fór niður í um 27 prósent af raunkostnaði. Líklega er þetta á meðal helstu ástæðna þess að undanfarin ár hefur mun hærra hlutfall tekjulágra neitað sér um tannviðgerðir á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum.
Með nýjum samningi og reglugerð ráðherra mun greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga hækka upp í 50 prósent og 100 prósent hjá þeim langsjúku sem reiða sig á hjúkrunarrými. Að því er fram kemur á vef Sjúkratrygginga Íslands má ætla að þessi aukni stuðningur við aldraða og öryrkja kosti um milljarð á ársgrundvelli.
Athugasemdir