Ég var að byrja á fyrsta ári í Versló. Ég var búin að vera ógeðslega stressuð fyrir fyrstu skóladögunum. Nú verð ég að reyna að verða meira opin svo ég kynnist nýju fólki. Í stærðfræðitíma um daginn var ég meira að spá í hvort ég ætti að segja eitthvað við stelpuna sem sat við hliðina á mér heldur en að hlusta á kennarann. Ég var bara að reyna að finna upp á einhverju að segja allan tímann.
Mér finnst ég ekki sérstaklega opin manneskja. Jú, ég get alveg verið opin en ég get líka farið alveg inn í mig. Reyndar eru margir lokaðir og feimnir svona fyrst. Sumir eru samt vanari því að vera í stórum skóla og hitta fólk á göngunum sem það þekkir ekki. Ég er ekki vön því. Ég er að koma úr Hlíðaskóla. Hann er lítill, við þekktumst öll og vorum mikil heild. Maður gat verið 100% maður sjálfur þar. Ég var vön að segja allar mínar skoðanir.
Nú er þetta allt öðruvísi. Nú þarf ég að passa í hverju ég er, hvernig ég lít út, hvað ég er að gera, hvað ég er að segja. Þetta á samt örugglega eftir að breytast. Svo er eitt þægilegt við þetta. Allir eru að byrja upp á nýtt. Í raun og veru getur þú algjörlega breytt þér þegar þú byrjar í menntaskóla, ef þú vilt.
Athugasemdir