Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hélt því fram í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi að aldrei hefði jafn miklum fjármunum verið varið til löggæslumála og nú, aukning á fjárheimildum hefði aldrei verið eins mikil og frá 2014 til dagsins í dag og að lögreglan hefði nægilegt fé til að tryggja réttaröryggi hér á landi.
Fullyrðingar Sigríðar stangast á við opinberar tölur um fjárveitingar til löggæslu, bæði tölur Hagstofunnar sem byggja á ríkisreikningum, og fjárlög. Ríkisreikningar fyrir árin 2017 og 2018 liggja ekki fyrir, en ef miðað er við fjárheimildir er ljóst að fjárveitingar til löggæslu eru lægri að raunvirði í dag heldur en árin 2006, 2007, 2008 og 2009. Þá eru færri menntaðir lögreglumenn nú að störfum hjá lögregluembættunum heldur en voru árið 2006. Þetta er raunin þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um 16 prósent frá 2006 samhliða veldisvexti í fjölda ferðamanna.
Ef litið er til fjárlaga fyrir árin 2014 til 2018 er ljóst að aukning fjárheimilda hefur verið afar hófleg. Löggæslu voru ætlaðir 13,6 milljarðar árið 2014 en 15,1 milljarðar árið 2018. Leiðrétt fyrir verðbólgu er þetta aðeins um 3 prósenta aukning, minni aukning heldur en margar stofnanir hafa fengið á sama tímabili gagnstætt því sem ráðherra heldur fram. Til samanburðar má nefna að raunútgjöld til löggæslu jukust um tæplega 11 prósent á jafnlöngu tímabili, milli áranna 2004 og 2008 í síðasta góðæri.
Hér má sjá upplýsingar um forsendur og útreikninga ráðuneytisins.
Ríkislögreglustjóri hefur greint frá því að embættið telji stöðu löggæslumála „almennt óviðunandi“ á Íslandi og lögreglumenn séu of fáir til að lögregla geti sinnt þjónustu- og öryggishlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Fullyrðingar ráðherra í fréttum Stöðvar 2 stangast á við þetta mat embættisins á fjárþörf lögreglunnar. Þrátt fyrir ferðamannasprengjuna, íbúafjölgun, uppsafnaðan vanda á niðurskurðarárunum eftir hrun og vaxandi áskoranir í flóknari heimi er fjárframlögum til lögreglu enn sniðinn mjög þröngur stakkur í fjárlögum.
Óljóst er af fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar hve mikil útgjaldaaukning er ætluð lögreglunni næstu árin, en ljóst er að ekki er um háar fjárhæðir að ræða. Heildarútgjöld til almanna- og réttaröryggismála aukast um 18,2 milljarða á áætlunartímabilinu, þar af er 14 milljörðum varið til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, og deilast hinir 4,2 milljarðarnir niður á landamæravörslu, ákæruvald og réttarvörslu, fullnustumál, réttaraðstoð og löggæslumál.
Athygli vekur að í fjármálaáætluninni er tilgreint það markmið að árið 2023 verði lögregla í 90 prósentum tilvika tilbúin með laust og mannað ökutæki til að sinna brýnustu neyðarútköllum um leið og þau berast, svo sem þegar þörf er á lífsbjargandi aðstoð. Þannig telja stjórnvöld ásættanlegt að í 10 prósentum neyðartilvika geti lögregla ekki brugðist umsvifalaust við neyðarkalli þeirra sem þurfa á hjálp að halda.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heldur því þó fram að sjaldan hafi verið jafn vel staðið að öryggi hins almenna borgara og nú. „Staðreyndin er sú að fé til löggæslumála... aukning á fjárheimildum hefur aldrei verið eins mikil og nú um stundir,“ sagði hún í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þá var haft eftir henni að lögreglan hefði nægilegt fé til að tryggja réttaröryggi hér á landi.
Athugasemdir