Lögverndun starfsheitis síns hefur lengi verið baráttumál leiðsögumanna en undirtektir stjórnvalda hafa verið dræmar og tilögur þessa efnis hafa jafnan dagað uppi, oftast vegna andmæla sem byggð hafa verið á misskilningi eða vafasamri hagsmunagæslu. Nýverið fól Leiðsögn - stéttarfélag - leiðsögumanna starfshópi það verkefni að gera tillögur um viðmiðunarreglur um menntun leiðsögumanna. Auk félagsins átti SAF og Ferðamálastofa aðild að starfshópnum. Í skýrslu sem starfshópurinn hefur samið byggir hann tillögur sínar á staðli um menntun leiðsögumanna sem settur var af Evrópska staðlaráðinu og öðlaðist gildi hér á landi sem Íslenskur staðall ÍST EN 15565:2008. Skólar, sem bjóða nám í leiðsögn, hafa margir miðað kennslu við staðalinn.
Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur ekkert verið gert til að nota staðalinn öfugt við mörg lönd í Evrópu og utan hennar, sem leggja hann til grundvallar viðurkenningu á starfsheitinu og í mörgum þeirra er skylt að hafa viðurkennda leiðsögumenn með í hópferðum um landið eða hluta þess. Hér á landi eru hins vegar engar kröfur gerðar í þessum efnum. Seljendur hópferða bjóða kynningu á náttúru- og menningarminjum án þess að tryggt sé að í för sé einhver sem hefur kunnáttu eða reynslu í leiðsögn. Meira að segja þjóðgarðar landsins með náttúrverðmæti á heimsminjaskrá og sögulegar menningarminjar eru opnir ferðahópum án faglegrar leiðsagnar. Það er metnaðarleysi auk þess sem af því stafar vá fyrir viðkvæma náttúru og öryggis ferðamanna er ekki gætt sem skyldi.
Þegar greint var frá framangreindri skýrslu fyrir nokkru leituðu fjölmiðlar viðbragða stjórnvalda við henni og var þá m.a. spurt um afstöðu til lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna. Viðbrögðin voru endurtekning á þeirri gömlu tugga að slíkt væri ekki tímabært! Engin rök fyrir því voru borin á borð eða þess getið hvað þyrfti til að lögverndunin yrði tímabær.
„Þau koma sér hjá því að skrá starfsemina, sniðganga reglur um skráningu ökutækja og kröfur um réttindi ökumanna“
Á síðustu mánuðum hafa komið fram upplýsingar um aukinn ágang erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem koma til landsins með farartæki, búnað og starfsfólk og eru í samkeppni við íslensk fyrirtæki. Þau koma sér hjá því að skrá starfsemina, sniðganga reglur um skráningu ökutækja og kröfur um réttindi ökumanna, leiðsögumanna og annarra starfsmanna og skattalegar skyldur fyrirtækjanna og starfsmannanna þeirra eru ekki uppfylltar. Í öðrum tilvikum senda erlendar ferðaskrifstofur hingað hópa sem í vaxandi mæli koma með erlenda fararstjóra eða leiðsögumenn án fullnægjandi þekkingar sem oft starfa hér langtímum saman án tilskilinna atvinnuleyfa og án þess að greiða hér skatt af launum fyrir störf sem innt eru af hendi hér á landi. Af viðbrögðum og sinnuleysi stjórnvalda má ætla að þau telji ekki sé tímabært að bregðast við þessari þróun með aukum gæðakröfum eða með öðrum hætti svo sem auknu eftirliti. Það væri fróðlegt að vita hvenær það verður tímabært.
Viðbára gegn lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður hefur líka verið sú að reyndir leiðsögumenn yrði sviptir störfum. Slíkt er rökleysa. Lögverndun starfsheitis felur ekki í sér að þeir, sem ekki uppfylla þær forsendur sem lögin setja fyrir notkun starfsheitisins séu útilokaðir frá störfum. Engin kvöð er á vinnuveitendunum að ráða eingöngu þá til starfa sem heimilt er að nota starfsheitið. Það má benda á að í tillögum framangreindrar skýrslu er gert ráð fyrir að auk formlegrar leiðsögumenntunar verði önnur menntun sem nýtist í starfi og starfsreynsla tekin til greina með raunfærnimati. Þeir sem lengi hafa starfað sem leiðsögumenn og/eða hafa aflað sér fullnægjandi menntunar með öðrum hætti myndu þannig fremur styrkja stöðu sína en veikja.
Lögverndun starfsheitis leiðsögumanna er ekki bara til að styrkja stöðu þeirra sem lagt hafa fyrir sig leiðsögunám og kostað það eða annað jafngilt nám og hafa starfsreynslu að baki. Hún myndi styrkja faglega leiðsagnar almennt, vera gæðamerki fyrirtækja sem vilja leggja áherslu á góða leiðsögn og gæti komið í veg fyrir að leiðsöguferðir séu seldar undir fölsku flaggi. Verndun starfsheitisins yrði þannig liður i því að byggja upp gæði og orðspor íslenskrar ferðaþjónustu og vera vörn gegn óprúttnum erlendum og innlendum aðilum sem nota vinnuafl á undirmálskjörum til undirboða.
Stjórnvöld ferðamála ættu að láta af innihaldsrýrum yfirlýsingum og grípa í staðinn til raunhæfra aðgerða og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki ættu ekki að móast gegn auknum gæðakröfum, sem myndu í reynd styrkja stöðu þeirra. Þessir aðilar verða að gera upp við sig fyrir hvað þeir standa, hvort það sé hlutverk þeirra að vernda og byggja upp ferðaþjónustu sem stendur undir nafni og nýtur virðingar fyrir gæði eða að halda með aðgerðaleysi hlífiskildi yfir þeim sem notfæra sér veikleika í reglusetningu og eftirliti til að maka krókinn á kostnað þeirra fyrirtækja sem betur gera, ferðamanna og ríkisins.
Athugasemdir