71% aðspurðra telur #MeToo umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag. 13% telja hana neikvæða. Þetta kemur fram í könnun MMR um málið.
#MeToo umræðan fór á flug á samfélagsmiðlum síðasta haust, en þar greindu þolendur kynferðislegrar áreitni og ofbeldis, sér í lagi á vinnustöðum, frá reynslu sinni.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru jákvæðari gagnvart umræðunni en þeir sem búsettir eru á landsbyggðinni. 74% íbúa höfuðborgarsvæðisins telur #MeToo umræðuna jákvæða, en aðeins 64% á landsbyggðinni. Þá eru konur jákvæðari en karlmenn. 82% kvenna telur umræðuna jákvæða og 60% karla.
Stuðningsfólk Miðflokksins var neikvæðast allra, en 32% þeirra telur #MeToo umræðuna neikvæða. 22% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins telur hana neikvæða og 16% stuðningsfólks Flokks fólksins. 91% þeirra sem styðja Vinstri græn finnst umræðan jákvæð og 87% stuðningsfólks Samfylkingarinnar.
Könnunin var framkvæmd dagana 16. til 22. maí 2018 og var heildarfjöldi svarenda 929 einstaklingar, 18 ára og eldri. Vikmörk geta verið allt að +/-3,1%.
Athugasemdir