Ríkissaksóknari hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hæft í ásökunum á hendur Víkingi Kristjánssyni leikara um að hafa misnotað son sinn. Víkingur greinir frá þessu í pistli á Kvennablaðinu, gagnrýnir barnaverndar- og réttarvörslukerfið harðlega og fjallar um sögusagnir um sig og son sinn sem enginn fótur reyndist fyrir að mati ákæruvaldsins.
„Niðurstaðan var sú að ég væri fullkomlega saklaus,“ skrifar Víkingur og bætir því við að það að sverja af sér barnaníð sé niðurlægjandi reynsla sem hann óski engri saklausri manneskju. Víkingur er fjögurra barna faðir og á jafnframt stjúpdóttur, en hafði aldrei verið sakaður um kynferðisbrot eða ósæmilega hegðun af neinu tagi fyrr en í fyrra.
Víkingur rekur ásakanirnar til umgengnisdeilu sem hann og barnsmóðir hans hafa staðið í um langt skeið. Þá bendir hann á að áður en ásakanirnar á hendur honum komu fram hafi unnusta hans verið sökuð um gróft ofbeldi gegn syni hans. Þær ásakanir hafi ekki reynst eiga sér neinar stoðir í raunveruleikanum. Telur Víkingur að barnaverndarkerfið hafi brugðist í veigamiklum atriðum.
„Ég veit fyrir víst að Rannsóknarlögreglan komst að niðurstöðu í málinu í október síðastliðnum og sendi hana þá til saksóknaraembættisins. Niðurstaðan var sú að ég væri fullkomlega saklaus. Síðan þá hefur málið legið í bunka, fyrst hjá Ríkissaksóknara, og því næst Héraðssaksóknara án þess að nokkuð væri aðhafst fyrr en nú, rúmu ári eftir að þessi ótrúlega atburðarrás fór af stað,“ skrifar Víkingur.
„Eftir stendur staðreynd sem má að mínu mati með fullum rétti orða svona: Sjö ára syni mínum var rænt frá mér af aðilum sem augljóslega svífast einskis í aðgerðum sínum, og ég bý í samfélagi þar sem engin leið er að treysta á að yfirvöld komi mér til hjálpar, þvert á móti hefur starfsfólk á sviði barnarverndar stutt þennan gjörning með vafasömum ákvörðunum sínum.“
Hann segist ekki geta breytt því sem gerst hefur en vilja gera sitt besta til að stuðla að því að ekkert foreldri þurfi að upplifa það sama og hann í samskiptum við íslensk barnaverndaryfirvöld. „Auk þess vil ég hreinsa mannorð mitt. Þrátt fyrir að mál þetta hafi blessunarlega ekki komist í hámæli, hef ég oftar en einu sinni heyrt af sögum sem um mig ganga úti í bæ, þess efnis að ég hafi í raun og sanni misnotað son minn. Mér þykir ljóst hvaðan þær sögur spretta. Það er gott að geta hér undirstrikað að þær eiga ekki við rök að styðjast.“
Athugasemdir