Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýnir verkalýðshreyfinguna harðlega í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag og segir margar af kröfugerðum verkalýðsforingja ekki eiga heima í kjaraviðræðum. „Menn láta ekki segja sér fyrir verkum. Fæstar af þessum yfirlýsingum snúa að því sem á að ræða við samningaborðið,“ er haft eftir Bjarna. „Kjaraviðræður á almenna markaðnum snúast um kaup og kjör en eiga ekki að snúast um sífellda kröfugerð á stjórnvöld.“
Bjarni segir svigrúm til launahækkana minna en áður. „Það liggur fyrir, og hefur legið lengi fyrir, að svigrúm til launahækkana er orðið lítið sem ekkert,“ segir hann. Þá nefnir Bjarni að það standi yfir vinna við að lækka neðra skattþrepið í tekjuskattskerfinu, en eins og Stundin hefur áður fjallað um myndi slík lækkun skila þeim sem eru með meira en 835 þúsund króna heildarlaun á mánuði þrisvar sinnum meiri skattalækkun en fólki á lágmarkslaunum. Bjarni setur þó þann fyrirvara að ríkisstjórnin ætli að huga vel að samspili bótakerfa og skattþrepa.
Fjármálaráðherra gefur lítið fyrir umræðu um að ákvarðanir kjararáðs hafi skapað ósætti á vinnumarkaði. „Launaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð er þrátt fyrir alla umræðuna sambærileg við bæði almenna og opinbera markaðinn,“ segir Bjarni og fullyrðir jafnframt að lögð hafi verið fram gögn sem sýni að „kjörnir fulltrúar sem síðast voru hækkaðir á kjördag 2016 séu komnir á sama ról undir lok þessa árs og aðrir hópar.“
Athugasemdir