Samkvæmt lögfræðilegri ráðgjöf sem nefndasvið Alþingis veitti þingmönnum í fyrra stangast það á við stjórnarskrá Íslands að aðrir en þingmenn, ráðherrar og forseti taki til máls á fundum Alþingis.
Engu að síður var brugðið sérstaklega frá þingsköpum í síðustu viku svo Pia Kjærsgaard, þingforseti Dana sem er þekkt fyrir útlendingaandúð og baráttu sína gegn innflytjendum og fjölmenningu, gæti flutt hátíðarávarp á Þingvöllum í tilefni 100 ára fullveldis Íslands.
Í fyrra hafði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í hyggju að leggja fram frumvarp til breytinga á þingsköpum þannig kveðið yrði á um sérstakan dagskrárlið einu sinni í mánuði þar sem óbreyttir borgarar, valdir af handahófi úr þjóðskrá, fengju að tjá sig úr ræðustól Alþingis. „Hugmyndin var sú að af og til færi fram umræða sambærileg liðnum störf þingsins, nema að þar yrði valið fólk af handahófi úr þjóðskrá sem fengi tækifæri til að halda stutta ræðu á þingi,“ segir Björn Leví í samtali við Stundina.
Það var álit lögfræðinga af nefndasviði Alþingis að stjórnskipulegir annmarkar væru á slíkri lagabreytingu. Birni var bent á að samkvæmt 31. gr. stjórnarskrárinnar ættu 63 þjóðkjörnir þingmenn sæti á Alþingi, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.
Kveðið væri á um undantekningu frá þessari meginreglu í 51. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir: Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á því að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn. Ómögulegt væri samkvæmt gildandi stjórnarskrá að leyfa öðrum en kjörnum fulltrúum þjóðarinnar að taka til máls á þingfundi.
„Slíkt frumvarp [frumvarpshugmynd Björns Levís] fer því í bága við stjórnarskrána og þá hugsun að þjóðin hafi rödd með vali á kjörnum fulltrúum sínum,“ sagði lögfræðingur í tölvupósti vegna málsins. „Það getur enginn tekið til máls á þingfundi úr ræðustóli Alþingis nema kjörnir fulltrúar.“
Samkvæmt þessari túlkun á stjórnarskrá og stjórnarskipunarvenjum fór Alþingi á svig við lög með því að leyfa Piu Kjærsgaard, þingforseta Dana, að halda ræðu á þingfundinum sem fram fór á Þingvöllum í síðustu viku. Gildir þá einu þótt Alþingi hafi samþykkt að bregða frá þingsköpum.
Stjórnmálafræðingur segir ávarpið þvert á allar venjur
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og fulltrúi þingflokksins í forsætisnefnd Alþingis, sagði í viðtali við Mbl.is á dögunum að hann hefði, á þessum grundvelli, gert athugasemd við lögmæti þess að erlendur fulltrúi ávarpaði Alþingi. Þá vék Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, að þessu álitamáli í Vikulokunum á Rás 1 um helgina.
„Ávarp forseta danska þingsins var
í raun þvert á allar venjur sem gilt hafa
um hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum“
Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur furðaði sig á því í grein sem birtist á Kjarnanum í gær að þingforseta Dana hefði verið boðið að halda ræðu á fundi Alþingis. „Steingrímur og aðrir skipuleggjendur fundarins fengu þá flugu í höfuðið að aðkoma danska þingsins væri nauðsynleg á hátíðarfundinum. Því væri eðlilegt að forseti danska þingsins ávarpaði hátíðarfundinn. En þetta er furðuleg hugmynd sem ekki styðst við neinar hefðir,“ skrifar hann. „Ávarp forseta danska þingsins var í raun þvert á allar venjur sem gilt hafa um hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum. Sjálfsagt var bjóða forseta þjóðþinga Norðurlandanna að vera viðstaddir, en engin þörf var á ávarpi.“
Ísland hafi varðveitt „upphaflega sjálfsmynd norrænna manna“
Hávær umræða hefur átt sér stað undanfarna daga vegna ræðuhalda Piu Kjærsgaard, en hún er þekkt fyrir útlendingaandúð, fordóma gagnvart múslimum, boðun harðrar innflytjendastefnu og hugmyndir um yfirburði vestrænnar og evrópskrar menningar.
Í ræðu sinni á Þingvöllum talaði Pia um Ísland sem „vöggu norrænnar menningar“ og sagði frá hugmyndum Dana um að Ísland væri „það land þar sem hin upphaflega sjálfsmynd norrænna manna var varðveitt.“ Þá vék hún að því hvernig sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. öld hefði átt þátt í að „kynda undir danskri þjóðerniskennd sem þá var í blóma“.
Björn Leví segir í samtali við Stundina að ef það standist stjórnarskrána að Pia Kjærsgaard flytji ræðu á Alþingi hljóti hugmyndir hans um að hleypa óbreyttum borgurum í ræðustól Alþingis undir sérstökum dagskrárlið einnig að standast lög. „Ég er búinn að biðja um að málið verði tekið upp aftur með tilliti til atburðanna í síðustu viku,“ segir hann í samtali við Stundina.
Athugasemdir