Danskir stjórnmálamenn hafa reytt hár sitt og skegg í dag vegna neikvæðra viðbragða íslenskra stjórnmálamanna við komu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til Íslands.
Inger Støjberg, innflytjendaráðherra Danmerkur, sendir Íslendingum tóninn á Facebook og segir stjórnmálamennina sem sniðgengu hátíðarfundinn á Þingvöllum vegna ræðuhalda Piu hafa sýnt lýðræðislega kjörnum fulltrúa og öllum kjósendum hans óvirðingu. Framgangan sé beinlínis ólýðræðisleg.
„Sá sem neitar að hlusta eða starfa með lýðræðislega kjörnum stjórnmálamanni, sá hinn sami snýr baki við öllum þeim þúsundum manna sem kusu viðkomandi. Það er sérkennileg leið til að gefa til kynna að sumar skoðanir séu réttari en aðrar,“ skrifar ráðherrann.
Inger, sem setið hefur á danska þinginu fyrir hönd hægriflokksins Venstre frá 2001, er á meðal umdeildustu stjórnmálamanna Danmerkur og hefur átt lykilþátt í að herða útlendingastefnu Dana. Athygli vakti árið 2016 þegar hún átti frumkvæði að löggjöf sem heimilaði dönskum stjórnvöldum að hirða verðmæti af hælisleitendum við komu þeirra til landsins. Aftur varð svo uppi fótur og fit í mars 2017 þegar Inger birti mynd af sér með köku þar sem hún fagnaði árangri sínum á þessu sviði.
„Niðurlægð á Íslandi“
Ekstrabladet sló því upp fyrr í dag að Pia hefði verið „niðurlægð á Íslandi“, en Pia er einn af frumkvöðlum meginstraumsþjóðernispopúlisma í Evrópu og þekkt fyrir útlendingaandúð, fordóma gagnvart múslimum og boðun harðrar innflytjendastefnu.
Kusu Píratar að sniðganga hátíðarfundinn og sögðu þjóðina eiga „betra skilið en að gælt sé við öfgaþjóðernishyggju í hennar nafni“. Þá gekk Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, út af fundinum þegar Pia Kjærsgaard flutti ávarp.
„Dónalegir íslenskir stjórnmálamenn hefðu gott af kennslu í siðprýði, mannasiðum og diplómatískri háttvísi. Reyndar væri ekki hægt að láta sig dreyma um betri kennara en Piu á þeim sviðum,“ skrifar Søren Espersen, varaformaður Danska þjóðarflokksins á Twitter.
Rasmus Jarlov, viðskiptaráðherra úr Þjóðarflokki íhaldsmanna, tekur í sama streng. „Þegar fulltrúi Danmerkur tekur þátt í hátíð í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland sleit sig frá Danmörku, þá er það ekki vegna þess að þetta sé meiriháttar hátíðisdagur fyrir okkur, heldur til að votta Íslendingum virðingu. Ákveðnir íslenskir stjórnmálamenn þakka fyrir þetta með því að sýna fyrirlitningu. Sama og þegið,“ skrifar hann.
Spyr hve mörgum hælisleitendum Íslendingar taki á móti
Jacob Mark, þingflokksformaður Sósíalíska þjóðarflokksins, leggur einnig orð í belg. „Píratar og einn fulltrúi Sósíaldemókrata virðast hafa ákveðið að halda sig fjarri þegar þingforseti heimsótti Ísland, sem opinber fulltrúi Danmerkur. Galið. Þess fyrir utan, þá skil ég ekki fólk sem heldur að það gagnist pólitískum málstað sínum að kúpla sig út úr umræðunni.“
Kenneth Kristensen Berth, þingmaður Danska þjóðarflokksins, er einnig hneykslaður á hegðun íslensku stjórnmálamannanna. „Gríðarlega óviðeigandi hegðun af hálfu Íslendinga gagnvart gesti sem þeir buðu til landsins. Hversu mörgum hælisleitendum hafa eiginlega Íslendingar tekið á móti? Held þeir ættu að hafa sig hæga, búandi við kjöraðstæður mitt úti á Atlantshafi.“
Athugasemdir