Ólafur Ó. Guðmundsson, barna- og unglingageðlæknir og stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, telur að stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum kunni að leiða til myndunar tvöfalds kostnaðarkerfis sjúklinga þar sem einungis hinir efnameiri hafi ráð á því að leita til sérfræðilækna.
„Afleiðing pólitísks ásetnings ráðuneytisins getur orðið sú að læknisþjónusta verði annars vegar ríkisrekin með óhjákvæmilegum biðlistum og hins vegar einkarekin fyrir þá sem efni á henni hafa,“ skrifar Ólafur í pistli sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. „Það yrði kaldhæðni örlaganna ef arfleið núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga en sú hætta er raunverulega fyrir hendi fari fram sem horfir.“
Eins og Stundin hefur fjallað ítarlega um jókst hlutdeild sérfræðilækna og einkastofurekstrar í heildarútgjöldum hins opinbera umtalsvert undanfarna tvo áratugi, eða um 30 prósent. Frá 2007 til 2016 hækkuðu fjárframlög hins opinbera til sérgreinalækna um tæp 42 prósent meðan framlög til Landspítalans drógust saman um 7 prósent.
Aukninguna til einkastofurekstrar má ekki síst rekja til rammasamnings Sjúkratrygginga við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna um lækningar utan sjúkrahúsa sem tók gildi í ársbyrjun 2014. Samkvæmt skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í fyrra var ekki samið á grundvelli heildstæðra og ítarlegra þarfa- og kostnaðargreininga. Úr varð samningur sem felur í sér fjárhagslega hvata til gríðarlegra afkasta óháð gæðum og árangri.
Ólafur Guðmundsson segir í grein sinni í Læknablaðinu að sérfræðilæknisþjónustan sé ein af grunnstoðum íslenska heilbrigðiskerfisins og að rammasamningur SÍ og sjálfstætt starfandi lækna sé „um margt ákaflega hagstæður“ og að sátt hafi ríkt í þjóðfélaginu um þetta fyrirkomulag.
„Í skoðanakönnun á viðhorfi landsmanna til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustu árið 2015 kom fram að flestir, eða 49,5%, töldu að læknastofur og sú þjónusta sem þar er veitt ætti að vera rekin jafnt af læknunum sjálfum og hinu opinbera og rúmlega 10% til viðbótar töldu að hún ætti fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum. Minnihluti svarenda, sem voru 1600 á aldrinum 18-75 ára, töldu að fela ætti hinu opinbera alfarið rekstur slíkrar þjónustu, eða 39,9%,“ skrifar Ólafur.
„Kostnaður vegna þessarar þjónustu er um 6% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála. Meðalkostnaður við hverja komu er um 11.000 krónur að aðgerðum meðtöldum. Vart verður séð að aðrir aðilar innan kerfisins geti veitt þjónustuna á betra verði eða af meiri gæðum. Opinbera kerfið nær ekki að anna þeim verkefnum sem því er falið. Sveigjanleiki þess er ekki sambærilegur og bæði vantar húsnæði og starfsfólk ef bæta ætti við þeim umfangsmiklu verkefnum sem nú eru leyst af hendi á læknastofum.“
Undanfarnar vikur hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sætt gagnrýni vegna fyrirmæla ráðuneytisins til Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsóknum nýrra sérfræðilækna um aðild að rammasamningi hjá Sjúkratryggingum. Læknafélag Reykjavíkur telur þetta bitna á öryggi sjúklinga og atvinnufrelsi innan heilbrigðisgeirans. Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, telur að með þessu vegi ríkisstjórnin að hinum einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins og Steingrímur Ari Arason, fráfarandi forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, hefur lýst því yfir að hann telji vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins ekki standast lög.
Ólafur Guðmundsson er sama sinnis og segir „illskiljanlegt að stjórnvöld skuli grípa til aðgerða sem miða að því að loka þessu kerfi og um leið skerða nauðsynlega nýliðun lækna“.
Hann telur það vonda stjórnsýslu „að grípa fyrst til þess að loka á það sem vel gengur án þess að leggja tillögur fram um hvað má lagfæra og gera betur“. Þá skrifar hann: „Afleiðing pólitísks ásetnings ráðuneytisins getur orðið sú að læknisþjónusta verði annars vegar ríkisrekin með óhjákvæmilegum biðlistum og hins vegar einkarekin fyrir þá sem efni á henni hafa. Það yrði kaldhæðni örlaganna ef arfleið núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga en sú hætta er raunverulega fyrir hendi fari fram sem horfir.“
Athugasemdir