Velferðarráðuneytið naut aðstoðar almannatengslafyrirtækisins Athygli ehf. þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt í fjölmiðlum í apríl síðastliðnum. Eins og tilkynningar frá ráðuneytinu bera með sér var kappkostað að draga upp jákvæða mynd af áformum ríkisstjórnarinnar á sviði heilbrigðis- og velferðarmála og mikið gert úr fyrirhugaðri útgjaldaaukningu til ýmissa málaflokka.
„Athygli tekur að sér gerð kynningarefnis og ráðgjöf fyrir velferðarráðuneytið vegna kynningar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum sem lýtur að málaflokkum heilbrigðis- og félags- og jafnréttismálaráðherra,“ segir í verksamningi ráðuneytisins við Athygli ehf. „Þá eru starfsmenn Athygli reiðubúnir að veita ráðuneytinu leiðsögn í samskiptum við fjölmiðla ef upp koma álitaefni í fjarveru fjölmiðlafulltrúa þess.“
Ráðuneytið gefur ekki upp hvert tímakaup verktaka var, en á vefnum Opnirreikningar.is kemur fram að ráðuneytið hafi greitt Athygli ehf. um 330 þúsund krónur í maí. Athygli ehf. er í eigu starfsmanna fyrirtækisins, að mestu þeirra Valþórs Hlöðverssonar, Kolbeins Marteinssonar og Gunnars E. Kvaran.
Frá árinu 2015 hefur ráðuneytið greitt öðru fyrirtæki, Góðum samskiptum ehf. í eigu almannatengilsins Andrésar Jónssonar, samtals 4,4 milljónir fyrir ýmiss konar ráðgjöf. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar um málið. Samið var við Góð samskipti um að fyrirtækið myndi veita almenna ráðgjöf og þjónustu, svo sem við almannatengsl, framleiðslu, hugmyndavinnu, hagsmunagæslu og önnur skyld verkefni.
Um leið og velferðarráðuneytið hefur greitt almannatenglum fyrir aðstoð við að koma skilaboðum um heilbrigðis- og velferðarmál á framfæri við almenning hafa ráðherrar þeirra málaflokka sem undir ráðuneytið heyra ítrekað verið staðnir að rangfærslum eða villandi upplýsingagjöf.
Til að mynda vakti það nokkra athygli í fyrra þegar þáverandi ríkisstjórn kynnti „geðvanda og sjúkrahúsþjónustu“ sem helstu áherslumálin í fjárlagafrumvarpi ársins 2018. Í ljós kom að í frumvarpinu var einungis gert ráð fyrir 60 milljóna framlagi úr ríkissjóði til að standa undir geðheilbrigðisáætlun ríkisstjórnarinnar, auk þess sem aðeins átti að auka útgjöld til reksturs og þjónustu Landspítalans um tæplega 600 milljónir, brot af því sem stjórnendur spítalans höfðu fullyrt að þyrfti til að tryggja viðunandi starfsemi. Sama ár var Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, ítrekað staðinn að rangfærslum um heilbrigðis- og velferðarmál, meðal annars um útgjöld hins opinbera til Landspítalans.
Athugasemdir