Fyrstu fimm mánuði ársins greindust 55 manns á Íslandi með lekanda. Í fréttabréfi sóttvarnarlæknis er varað við lekandafaraldri, en á tímabilinu hafa þegar greinst fleiri en allt árið 2015.
Af þeim 55 sem greindust voru 51 karlmaður og bendir sóttvarnalæknir á að faraldurinn sé einkennandi fyrir karlmenn sem hafa mök við aðra karlmenn, en tilfellum meðal kvenna fer einnig fjölgandi. Meirihluti þeirra sem greindust eru íslenskir ríkisborgarar.
Starfshópur velferðarráðuneytisins vakti nýlega athygli á aukinni tíðni lekandasmita á Íslandi, sem og erlendis, sem mögulega orsakast af auknum straumi ferðamanna til Íslands og vaxandi ferðalaga Íslendinga erlendis. „Við síðustu aldamót voru skráð innan við 10 tilfelli á hverja 100 þúsund íbúa á ári en árið 2016 var fjöldinn kominn í 27 tilfelli á hverja 100 þúsund íbúa eða samtals 89 einstaklingar,“ segir í skýrslu hópsins frá janúar. „Var það nánast tvöföldun miðað við 2015.“
Lekandi orsakast af bakteríunni Neisseria gonorrhoea sem berst á milli fólks við kynmök. Sýkingin er þekktur orsakavaldur ófrjósemi meðal kvenna og karla. Erlendis hefur borið á ónæmi gegn helsta sýklalyfinu ceftríaxone sem notað er gegn lekanda, en í skýrslu starfshópsins er tekið fram að slíkt ónæmi hafi ekki greinst á Íslandi enn sem komið er. Koma má í veg fyrir lekandasmit við kynlíf með notkun smokka.
Athugasemdir